Í skógum landsins er allskonar lífríki. Þar má auðvitað finna tré en einnig lífverur sem margar hverjar eru meira eða minna háðar trjám. Ein af þeim er lítil lúsategund sem á fræðimálinu kallast Elatobium abietinum Walker. Hún herjar á grenitré, einkum þau sem ættuð eru frá Ameríku, og getur valdið miklum skaða á þeim. Svo mikil eru áhrifin á mest ræktuðu grenitegundina að rétt þykir að kenna lúsina við þessa grenitegund og því heitir hún sitkalús á íslensku. Við, sem hrífumst á allskonar trjám lítum gjarnan á lúsina sem skaðvald, enda er hún það. En í fyrirsögninni tölum við einnig um blessun.
Hvernig ætli standi á því?
Til að fræðast frekar um lúsina og átta sig á blessuninni sem henni fylgir er alveg tilvalið að lesa lengra.

Segja má að þrjár tegundir meindýra herji á íslenskt greni svo orð séu á gerandi. Það eru grenisprotalús, köngulingur og sitkalús. Af þessum þremur veldur sitkalúsin mestu tjóni (Guðmundur og Halldór 1997). Sitkalús hefur herjað á greni á Íslandi í hálfan sjöunda áratug og stundum valdið umtalsverðu tjóni. Hún er græn og nokkuð samlit barrnálunum sem hún situr á. Því er ekki alltaf auðvelt að koma auga á hana fyrr en hún fer að valda skaða. Fjöldi hennar getur verið misjafn milli ára og svo er að sjá sem þar ráði veðurfar og náttúrulegir afræningjar mestu. Segja má að tjónið, sem lúsin veldur, sé af tvennum toga. Í fyrsta lagi „stelur“ hún sykri úr barrnálunum sem tréð hefur haft fyrir að ná í. Þetta tjón er þó ekki mikið en þegar mikið er um lúsina tapar tréð töluverðri næringu og getur það haft áhrif á vöxt og þrif þeirra trjáa sem fyrir þessu verða. Hitt tjónið er þó alvarlegra. Barrnálarnar sem lýsnar leggjast á geta drepist. Dauðar barrnálar geta ekki ljóstillífað. Þetta gerir þó ekki mikið til ef aðeins fáar barrnálar drepast en margar lýs geta drepið enn fleiri nálar. Á meðan trén eru að endurnýja nálarnar geta þau verið ljót og vaxa að auki mjög lítið. Í verstu tilfellum getur þetta jafnvel drepið trén.

Fyrstu einkenni um sitkalýs í grenitrjám eru gular þverrákir á nálum nálægt stofni. Svo gulna þær alveg, verða stundum brúnar, drepast og falla af. Skærgular eða brúnar nálar á grænum sprota innarlega í trjákrónu er merki um sitkalús. Ef mergð lúsa er mikil getur þetta valdið miklu tjóni, enda er fjöldi skemmdra og dauðra nála háður fjölda lúsa.

Lýsing
Sitkalús, Elatobium abietinum, er blaðlús, Aphidoidae, af ættbálki jurtasugna, Homoptera. Hún er mjög smávaxin og fullvaxnar lýs verða aðeins um 1,5 til 1,8 mm að lengd. Þar sem þær eru að auki samlitar barrinu sem þær nærast á er ekkert furðulegt þótt erfitt sé að koma auga á þær. Það er samt furðuauðvelt að finna þær. Hægt er að ná sér í hvítt A4 blað og stinga því inn undir grenigreinar og hrista þær duglega. Falla þá dauðar nálar og lifandi lýs á blaðið. Þar er komið hið ákjósanlegasta sýni fyrir smásjár og öflugar víðsjár. Það má svo gjarnan sjá hvort krökkum hefur tekist að stilla fókusinn á því að þá koma gjarnan skrækir frá þeim og jafnvel hopp upp úr stólum.
Lýsnar eru allar algrænar á litinn, nema augun sem eru rauðgyllt og mjög flott í hæfilegri stækkun. Því miður sjást þessi rauðu augu ekki nægilega vel á sumum af þeim myndum sem við höfum.
Oftast eru lýsnar vængjalausar en stöku lýs fá vængi um leið og þær fara í gegnum síðustu hamskipti sín. Slíkar lýs geta dreift tegundinni.

Kyn
Svo virðist vera sem kynjahlutfall sitkalúsa sé verulega brogað. Vantar þar töluvert upp á jafnrétti svo jafnvel ráðherralisti núverandi ríkisstjórnar Íslands hefur umtalsvert jafnara kynjahlutfall í samanburðinum. Meirihluti allra sitkalúsa í heiminum er kvenkyns. Sitkalús var fyrst lýst af vísindalegri nákvæmni árið 1848 en karldýri var ekki lýst fyrr en árið 1959 (Jón Gunnar 1985). Það er þó ekkert miðað við ástandið hér á landi. Á Íslandi hafa aldrei fundist karlkyns sitkalýs.

Fjölgun
Þar sem karldýrin eru miklu fágætari en kvendýrin má velta því fyrir sér hvernig lýsnar fjölga sér. Eru þessi fáu karldýr svona svakalega fjölþreifin? Svarið við því er nei. Jafnvel þótt þau væru það dugar það ekki til á Íslandi, enda hafa ekki fundist nein karldýr hér á landi. Sitkalúsin leysir þetta með því að grípa til meyfæðinga. Hjá þeim þarf ekki tvo í tangó. Hver kvenkyns sitkalús getur fætt lifandi unga án aðkomu karllúsa og ungarnir verða nákvæm eftirmynd mæðra sinna. Meyfæðing er meðal þeirra ástæðna sem valda því að sitkalúsin getur fjölgað sér jafn hratt og raun ber vitni. Ein lítil lús getur orðið að þúsund lúsum á 3 - 4 mánuðum (Jón Gunnar 1985).
Þar sem bæði kyn sitkalúsarinnar er að finna geta karldýr frjóvgað kvendýrin þannig að þau verpi eggjum á haustin. Þetta er reyndar sama ferli og hjá mörgum blaðlúsategundum sem sumar hverjar lifa á Íslandi, en hjá sitkalúsinni er þetta ekki svona hér á landi. Reyndar segja þeir Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson (2014) að kynæxlun sitkalúsa verði sjaldan þar sem úthafsloftslag ríkir. Það er því ekki bara hér á landi sem hlutfall milli kynja er einkennilegt.

Lífsferill
Öfugt við flestar lýs á Íslandi þá er sitkalúsin á kreiki allt árið. Aðrar lýs verpa gjarnan á haustin og drepast svo. Eggin klekjast svo út að vori. Þannig er því ekki háttað hjá sitkalúsinni. Hún stundar ekkert kynlíf og verpir því ekki en getur stundað meyfæðingu allt árið. Hraði og tíðni meyfæðinga getur farið eftir næringarástandi mæðranna og umhverfishita.
Hver nýfædd sitkalús er aðeins um 0,6 mm löng. Hún hefur hamskipti fjórum sinnum áður en hún verður fullvaxta og fimm sinnum ef hún fær vængi. Það líða um 3 til 5 dagar á milli hamskipta við 15°C hita en allt gengur hægar fyrir sig ef hitinn er lægri eða næring ekki nægileg. Guðmundur og Halldór (1997) segja að það líði tæpar þrjár vikur áður en lúsin telst fullvaxin. Einum til þremur dögum síðar getur hún sjálf farið að eignast afkvæmi. Eftir það getur hún fætt afkvæmi daglega í 10 til 15 daga. Fljótlega eftir það drepst lúsin (Jón Gunnar 1985). Í heildina getur hver lús eignast um 15 afkvæmi á sinni stuttu ævi (Guðmundur og Halldór 1997). Í vetrarkuldum gengur þetta hægar fyrir sig. Lýsnar verða eldri og lengra líður á milli hamskipta og meyfæðinga. Samt getur sitkalúsin sem best eignast afkvæmi þótt meðalhiti dagsins sé um 0°C og hér á landi kippir hún sér ekkert upp við það þótt hitinn fari niður í -6°C. Það dugar ekki til að hún hætti að þroska fóstur (Jón Gunnar 1985). Í kaflanum um næringarnám segjum við frá því að þótt lífsferlarnir gangi hraðar fyrir sig þegar hlýtt er, rétt eins og hjá öðrum lífverum með kalt blóð, þá er sumarið ekki endilega besti tíminn fyrir lúsina, því þá er styrkur amínósýra lægri í æðum trjánna sem hún nærir sig á en þegar trén eru í hvíld. Þar með er minni næringu að hafa fyrir lýsnar.

Heimkynni á Íslandi
Sitkalýs hafa numið allt landið þar sem greni er ræktað. Lengi voru vonir bundnar við að veðurfar á Íslandi væri með þeim hætti að lúsin gæti ekki þrifist hér til langframa. Það sama átti við um minkinn á sínum tíma. Í hvorugu tilfellinu gekk það eftir. Þá bundu menn vonir við að veðráttan í innsveitum væri þannig að lýsnar þyldu ekki við þótt þær gætu lifað af við mildara loftslag nærri sjó. Það reyndist tálsýn ein. Við komum að þessum þætti hér aðeins neðar.
Lýsnar halda til á neðra borði laufblaða og líður best í skugga. Því er mest af þeim inn við stofna trjánna, neðarlega á trjánum. Mun minna er af henni utar á greinunum og hærra í trjánum, nema þegar lúsinni fjölgar um of. Þetta sést vel á skemmdum á nálum. Þær eru fyrst og fremst næst stofni. Ef ekkert er þar að hafa færa lýsnar sig utar og skemma þar.

Ef vel loftar um greinarnar geta lýsnar fallið af þeim en í þéttum lundum er meira logn. Þar líður lúsunum best. Mestum skaða veldur lúsin í of þéttum grenilundum sem ekki hafa verið grisjaðir að neinu marki. Því miður eru margir trjáreitir einmitt þannig.
Sumir segja að það kunni að vera ofmat þegar talað er um að lúsin þrífist best í dimmum, þéttum skógum. Að minnsta kosti eru til vel þekkt dæmi um nánast stakstæð tré sem orðið hafa illa fyrir barðinu á þessari litlu lús. Aftur á móti er það svo að í þéttum lundum er óvíst að nývöxtur myndist þar sem skortur er á sólarljósi. Það er einmitt nývöxturinn sem sleppur best. Þess vegna er það svo að þau tré sem hafa lítinn nývöxt (t.d. vegna þess að trén standa of þétt) geta orðið verr úti en tré sem hafa greinar sem vaxa mikið. Nývöxturinn sleppur best. Þetta atriði gæti ráðið miklu um hvað þéttir, ógrisjaðir lundir geta orðið illa úti eftir að lúsinni fjölgar um of.

Erfðabreytileiki á Íslandi
Rétt fyrir aldamótin var ákveðið að skoða erfðabreytileika sitkalúsarinnar á Íslandi. Afraksturinn var birtur í grein í tímaritinu Agricultural and Forest Entomology (V. Sigurðsson o.fl. 1999). Svona rannsókn getur veitt miklar upplýsingar, meðal annars vegna þess að hér á landi hafa ekki fundist neinar karlkyns sitkalýs. Einu breytingarnar sem eru á milli erfðaefnis einstaklinga í sama stofni geta því ekki stafað af öðru en stökkbreytingum. Niðurstöðurnar urðu meðal annars þær að í ljós kom að á Íslandi eru tveir meginstofnar til af lúsinni. Annar um vestanvert landið, hinn um landið austanvert. Þessir stofnar eru skýrt afmarkaðir. Eða þannig var það að minnsta kosti fyrir aldarfjórðungi. Erfðabreytileiki milli lúsa í austurstofninum reyndist vera meiri en í þeim vestari. Það getur varla stafað af öðru en fleiri stökkbreytingum fyrir austan sem aftur bendir til þess að sá stofn hafi verið lengur í landinu. Það er merkilegt í ljósi þess að lúsin fannst fyrst í Reykjavík.

Greinilegt var, samkvæmt rannsókninni, að stökkbreytingar eiga sér stað nokkuð reglulega. Innan hvors stofns fyrir sig var nokkur breytileiki. Eftir því sem lengra var á milli sýnatökustaða, innan hvors hóps fyrir sig, varð breytileikinn meiri. Ef til vill má draga þá ályktun að þetta merki að vængmyndun innan lúsahópsins sé fremur fátíð eða að minnsta kosti að þær fljúgi ekki mjög langt. Það er reyndar alveg í samræmi við hversu hægt gekk hjá lúsinni að færa sig milli landshluta eins og sjá má á kortinu hér að ofan. Vísindamennirnir ályktuðu ekkert um þetta atriði, og vel má vera að sá sem skrifar þetta oftúlki niðurstöðurnar.
Samkvæmt greininni er það svo að báðir stofnarnir virðast hafa numið land í Reykjavík og dreifst þaðan. Talið er að þeir hafi báðir komið með innflutningi frá Danmörku því íslensku lýsnar eru erfðafræðilega skyldar þeim dönsku.

Svo virðist sem veturinn 1978-1979 skipti öllu máli varðandi þessa tvo stofna. Hann var svo kaldur á Suðvesturlandi að annað eins hafði ekki sést síðan frostaveturinn mikla árið 1918. Þá virðist gamla lúsin hafa drepist en nýr stofn, sem sennilega var nýkominn, lifað af. Nýju lýsnar hafa síðan dreift sér um vestanvert landið á meðan eldri stofninn er enn um landið austanvert (V. Sigurðsson o.fl. 1999).
Nú er meira en aldarfjórðungur frá því að þessi rannsókn var gerð og við vitum ekkert um hvernig staðan er í dag. Þarna er komið ljómandi verkefni fyrir áhugasaman líffræðing.

Næringarnám
Sitkalús lifir á greninálum. Hún er með mjóan og langan sograna sem hún stingur inn í sáldæðar nálanna. Oftast er stungið í gegnum loftaugun á neðra borði nálanna. Síðan sýgur lúsin upp næringuna úr sáldæðunum (Jón Gunnar 1985). Þegar lúsin stingur í æð spýtir hún munnvatni sem harðnar og myndar hlíf um ranann. Í munnvatninu eru efni sem koma í veg fyrir að tréð geti lokað sárinu eftir stunguna. Trúlegast er að það séu einmitt þessi efni sem að lokum ganga að nálunum dauðum. Efnin valda eitrun í nálinni og þeim mun oftar sem stungið er, þeim mun meiri er skaðinn. Skemmdir koma í ljós um 5 til 10 dögum eftir að eitrun hefst (Jón Gunnar 1985, Guðmundur og Halldór 1997 og 2014).

Merkilegt er að sjá að lýsnar líta ekki við nýjum sprotum á sumrin ef annað er í boði. Ungar nálar eru þaktar vaxhúð með varnarefnum sem lýsnar forðast (Guðmundur og Halldór 2014). Þegar líða tekur á haustið veðrast vaxhúðin af og þá er ekkert því til fyrirstöðu að lýsnar leggist á nýjar barrnálar. Þá sjúga þær úr nálum árssprota eins og annarra nála. Ef nýir sprotar skemmast ekki mun tréð ná sér, þótt nánast allt annað barr sé skemmt. Auðvitað dregur svona áfall úr vexti en tréð getur náð sér undraskjótt. Verði árssprotar einnig fyrir skemmdum er óvíst að tréð lifi hremmingarnar af.

Þótt fæða sitkalúsarinnar teljist nokkuð einhæf er það svo að hún breytist eftir árstíðum. Styrkur amínósýra í fæðunni skiptir miklu fyrir þrif hennar. Hann er mestur í trjánum þegar þau eru í dvala en fellur hratt þegar vöxtur hefst að vori. Hann helst lágur þar til vöxtur hættir á haustin. Þegar styrkur amínósýra minnkar hefur það neikvæð áhrif á bæði fitusöfnun og frjósemi lúsarinnar. Því er tímgun sáralítil hjá sitkalúsinni yfir hásumarið en frjósemin eykst þegar tréð er í dvala (Guðmundur og Halldór 2014). Einkum á það við ef hitinn er sæmilega hár. Af þessu leiðir að fjölgun gengur hraðast fyrir sig hjá lúsinni í hlýindaköflum þegar tréð er í dvala. Þá er mesta næringu að hafa úr æðum trjánna og virkni lúsarinnar er mikil.

Fórnarlömb
Sitkalús lifir fyrst og fremst á grenitrjám, Picea spp. Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson (1997) segja að hún þrífist á að minnsta kosti helmingi allra, þekktra grenitegunda í heiminum. Hún getur einnig lifað á degli, Pseudotsuga menziesii og einitegundum, Juniperus spp. samkvæmt Jóni Gunnari (1985). Hér á landi hefur hún fundist á rauðgreni, Picea abies, sitkagreni, P. sitchensis, hvítgreni, P. glauca og blágreni, P. engelmannii, en einnig á lerki, Larix spp. án þess þó að valda því verulegu tjóni.
Sitkalús veldur grenitegundum misjafnlega miklum skaða. Amerísku tegundirnar (til dæmis hvítgreni, sitkagreni og blágreni) þola lúsina mun verr en rauðgrenið, sem er evrópsk tegund. Satt best að segja veldur lúsin litlum skaða á rauðgreninu nema þegar þeim mun meira er af henni. Þetta tengist uppruna lúsarinnar í heiminum eins og sagt verður frá hér aðeins neðar og hvernig mismunandi tegundir bregðast við endurteknum árásum lúsarinnar.

Sitkalús og ungt greni
Þegar greni vex upp í ógrisjuðum lundum getur það orðið allt of þétt þegar það stækkar. Það á þó sjaldan við þegar plönturnar eru enn ungar og smávaxnar. Margar grenitegundir teljast nokkuð skuggþolnar. Þeim er oft plantað í skjól aspa, birkis og lerkis. Allar þessar plöntur hleypa það miklu sólarljósi í gegnum krónurnar að skuggi verður sjaldan vandamál. Þess vegna vex ungt greni sjaldnast í svo miklum skugga að telja megi það kjöraðstæður fyrir sitkalús. Það getur þó hent, ef greni er plantað í mikinn skugga og gott skjól. Aftur á móti er rétt að geta þess að í gróðrarstöðvum er greni ræktað í bökkum. Ef bakkarnir eru geymdir of lengi eftir afhendingu úr stöðvunum geta ungplöntur staðið mjög þétt. Þess vegna getur það gerst að sitkalús valdi tjóni á teygðum bakkaplöntum. Einkum á það við ef gróðursetning hefur dregist úr hófi fram og grenið haft of lengi í bökkunum. Rétt er líka að hafa í huga að sitkalús getur gert vart við sig í ungu greni án þess að valda verulegu tjóni til lengri tíma. Aftur á móti geta trén orðið ljótari ef nálar fara að falla af nálægt stofni, þótt í litlum mæli sé. Það getur til dæmis komið í veg fyrir að trén nýtist sem jólatré. Því getur sitkalús valdið skaða í jólatrjáaræktun. Helst er það blágreni sem er þarna í hættu. Það er algengt jólatré sem hættir nokkuð snemma að vaxa á sumrin. Þar með telst það góður biti fyrir sitkalús. Svo finnast þess dæmi að staðbundnir faraldrar hafi lagst á ungt greni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Það getur gerst þótt vel lofti um trén. Líklegt er að þar skipti skortur á afræningjum töluverðu máli.
Fyrri myndin sýnir sitkagreni 12 árum eftir gróðursetningu sem lítur illa út eftir staðbundinn faraldur í Tálknafirði. Ekki er hægt að kenna því um að trén hafi staðið of þétt. Seinni myndin sýnir ótrúlega bötun aðeins tveimur sumrum síðar. Myndir: Lilja Magnúsdóttir.
Uppruni
Sitkalús er upprunnin í rauðgreniskógum Evrópu. Þaðan breiddist hún austur um alla Asíu fyrir löngu og komst til Ameríku fyrir aðeins um einni öld eða rúmlega það (Guðmundur og Halldór 2014). Hún hefur borist víðar en það er utan við efni þessa pistils.
Það þarf ekki að koma á óvart að grenitegundir, sem hafa þróast samhliða sitkalúsinni, standast ásókn hennar betur en amerísku tegundirnar, sem hafa nýlega kynnst henni. Evrópskar og asískar tegundir virðast samt hafa dottið niður á ólíkar lausnir. Samkvæmt Guðmundi og Halldóri (1997) hafa sumar asískar tegundir þróað með sér varnarefni eða terpena til að eiga við lúsina, en rauðgrenið fór aðra leið. Sem dæmi um asískar tegundir má nefna glitgreni, Picea glehnii, sem reynt hefur verið hér á landi og þrífst ágætlega. Það myndar sérhæfða terpena sem fara illa í sitkalýs. Því þrífst sitkalúsin illa á glitgreni og nokkrum öðrum asískum tegundum. Hún bæði vex hægt og tímgast hægt á þessum tegundum (Guðmundur og Halldór 1997).
Þrjú vellöguð sitkagrenitré sem urðu fyrir árás sitkalúsa í litlum, staðbundnum faraldri á Oddeyrinni á Akureyri árið 2007. Myndir: Bergsveinn Þórsson.
Hér að ofan er sagt frá því að lúsin stingur munnlimum sínum inn á sáldæðar barrnálanna. Þær eru nokkuð vel varðar hjá amerísku tegundunum og því getur þurft nokkrar tilraunir fyrir lúsina til að hitta á þær. Því eru þær nálar meira stungnar og fara verr en nálar rauðgrenis. Þar eru sáldæðarnar auðfundnar þannig að lúsin á auðveldara með að stinga í þær. Því þarf hún að stinga mun minna til að næra sig á rauðgreni og þar með dregur úr tjóninu sem nálarnar verða fyrir. Það er eins og rauðgrenið hafi leyst þetta reiknisdæmi náttúrunnar með því einfaldlega að sætta sig við ákveðinn fórnarkostnað til að verða síður fyrir miklu tjóni. Rauðgrenið hefur því ekki myndað sérhæfð varnarefni, heldur sérstakt þol. Því verður það sjaldan fyrir verulegu tjóni, þótt lúsin þrífist vel á trénu. Í miklum faröldrum dugar þetta samt ekki fyrir rauðgrenið, en nálarnar eru engu að síður þannig vaxnar að rauðgreni verður að jafnaði fyrir minni skaða en amerísku tegundirnar.

Landnám
Í nóvember árið 1959 fann skógfræðingurinn Guðmundur Örn Árnason sitkalús í gróðrarstöð Skógræktarfélags Reykjavíkur í Fossvogi (Jón Gunnar 1985). Þar er nú Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar. Jón segir frá því að skemmdir voru talsverðar á greni eftir lúsina og var gripið til þess ráðs að reyna að eitra fyrir henni. Talið er víst að lúsin hafi borist hingað með dönskum jólatrjám sem voru til sölu í gróðrarstöðinni um jólin ári áður, en lúsin gerði mikinn usla í Danmörku bæði árið 1957 og 1959. Niðurstöður erfðarannsókna, sem gerðar voru skömmu fyrir aldamót, staðfestu skyldleika íslensku sitkalúsarinnar við þá dönsku (V. Sigurðsson o.fl. 1999). Því má slá því föstu að tilgátan um dönsku jólatrén sé rétt. Því hefur líka verið haldið fram að lúsin hafi komið með sitkagreniplöntum úr gróðrarstöðinni Alstahaug í Nordlandfylki í Norður-Noregi, en það fær varla staðist því erfðafræðirannsóknir benda til dansks uppruna.
Eftir þennan fyrsta fund er sitkalúsarinnar getið í skýrslum skógræktarstjóra og skógarvarða næstu árin. Má sem dæmi nefna að Hákon Bjarnason skrifaði: „Það var ömurlegt yfir að líta“ þegar hann lýsir faraldri haustið 1964 (Jón Gunnar 1985). Upp komu faraldrar en þess á milli hvarf lúsin nánast alveg. Nánar um þá hér síðar.
Tvær myndir úr Kvígindisfelli í Tálknafirði. Fyrri myndin sýnir illa útleikin sitkagrenitré árið 2015 en sú síðari sýnir sömu tré sem hafa náð sér að fullu árið 2022. Myndir: Lilja Magnúsdóttir.
Frostþol
Veðrátta virðist skipta miklu máli fyrir afkomu sitkalúsa. Sérstaklega hitastig. Mikil frost geta steindrepið lýsnar og hlýindakaflar gagnast lúsunum til fjölgunar. Í grein sinni frá 1985 segir Jón Gunnar Ottósson, sem þá vann á Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, frá því að vetrarhörkur kunni að draga mjög úr sitkalúsafaröldrum. Nefnir hann dæmi frá Danmörku, Þýskalandi og Bretlandi. Allstaðar er því haldið fram að frost geti slegið verulega á stofnstærð sitkalúsa en mismunandi hitastig er gefið upp. Þessar upplýsingar hafa sennilega legið fyrir þegar lúsin nam hér land. Má nefna sem dæmi að Hákon Bjarnason skrifaði árið 1962: „Sitkalúsin sem óð víða uppi fyrir 2 árum, er svo að segja horfin, alveg eins og líkindi voru til.“ (Hákon 1962). Þetta var eðlileg ályktun skógræktarstjórans miðað við það að frostið, sem nefnt er í grein Jóns Gunnars, er ekki meira en svo að þess má vænta árlega á Íslandi.
Samt lifir lúsin enn á Íslandi.
Þar sem sitkalýs stunda meyfæðingu hér á landi, eins og áður er nefnt, verður ekki séð í fljótu bragði að lýsnar hafa aðlagast umtalsvert meira frosti á Íslandi en sunnar í Evrópu. Sennilega er skýringin önnur. Fyrir það fyrsta er rétt að geta þess að ungar sitkalýs þola miklu meira frost en fullorðnar lýs. Þeir Guðmundur og Halldór (2014) segja að ungar lýs, sem ekki eru farnar að taka til sín fæðu, þoli allt niður í 25° frost. Það er stórmerkilegt hjá svona litlum lífverum. Því er það þannig að þótt frost geti slegið verulega á fjölda lúsa, þá eru engar líkur á að allar lýsnar drepist í frostaköflum nema frostið verði þeim mun meira og vari í mjög langan tíma á sama tíma og ekkert skjól er að finna, til dæmis undir snjó á greinunum.

Hvernig drepur frostið lýsnar?
Árið 1995 skrifaði Guðmundur Halldórsson grein um frostþol sitkalúsa í Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Það sem hér er sagt byggir að mestu á þeirri grein. Allt bendir til að þegar sitkalýs drepast úr kulda gerist það þannig að magainnihald þeirra frjósi fyrst. Það má vel hugsa sér skárri dauðdaga. Þetta gerist þegar lýsnar sjúga upp ískristalla sem myndast í sáldæðum nálanna sem þær nærast á. Eftir því sem kvæmi sitkagrenis eru suðlægari, þeim mun minna frost þola þau áður en þau mynda kristalla. Norðlæg kvæmi eru frostþolnari og mynda ekki ískristalla í sáldæðum fyrr en frostið verður umtalsvert. Hér á landi eru, eðli málsins samkvæmt, ræktuð norðlægari kvæmi af sitkagreni en á meginlandi Evrópu. Þess vegna þarf meira frost til að mynda ískristallar í sáldæðum greninála hér á landi en sunnar í Evrópu. Það leiðir til þess að sitkalýs á Íslandi þola meira frost en systur þeirra á meginlandinu (Guðmundur 1995). Því eru það ekki erfðir lúsarinnar, heldur erfðir grenitrjánna sem gera það að verkum að meira frost þarf til að drepa lýs á Íslandi en sunnar í álfunni. Ólíkt flestum öðrum blaðlúsum á Íslandi leggjast sitkalýs ekki í dvala. Þær þurfa að þreyja þorrann og góuna á greninálunum. Í miklu frosti geta myndast ískristallar í sáldæðum trjánna sem drepa lýsnar þegar þær næra sig. Fari frostið niður fyrir -20°C er samt óvíst að allar lýsnar drepist. Yngstu lýsnar munu lifa og hugsanlega hjálpar til ef ungar lýs geti lifað af undir snjó á greninálunum án þess að næra sig. Að auki geta lýs borist síðar frá svæðum þar sem kuldinn er ekki jafn mikill. Því er alveg ljóst að lúsin mun ekki hverfa af landinu.
Sá sem þetta ritar hefur velt því fyrir sér hvort ungar og litlar lýs geti lifað af mikið frost, en ekki bara nýfæddar lýs sem ekki eru farnar að næra sig. Staðreyndin er sú að til að fullorðnar lýs drepist þurfa þær að sjúga upp ískristalla úr sáldæðum grenitrjáa. Þá frýs magainnihaldið og lýsnar drepast. Þá vaknar sú spurning hvort ungar lýs, sem eru byrjaðar að sjúga næringu, séu of litlar til að sjúga upp ískristalla í gegnum sinn litla sograna. Ef svo er þá geta þær lifað af langa frostakafla. Þetta er bara tilgáta sem ritara finnst að hann hafi heyrt fyrir löngu, en þar sem hann finnur ekki neinar rannsóknir sem styðja þetta er þetta sjálfsagt tóm þvæla. Þó er eins og í þoku minninganna sé samtal við Bjarna Guðleifsson, þar sem þetta bar á góma.

Niðurstaðan er sú að hér geisa sitkalúsafaraldrar ekki eftir kalda vetur. Hversu kalt þarf að vera ræðst af kvæmum trjánna sem lúsin lifir á. Hér þarf um -13 til -15°C til að drepa helming stofnsins og koma þannig í veg fyrir faraldra að vori. Fari frostið niður fyrir -18°C slær verulega á stofninn. Á meginlandinu dugar jafnvel að frostið fari niður í -8°C til að slá verulega á stofnstærð (Guðmundur 1995, Guðmundur og Halldór 1997 og 2014). Við þetta er því að bæta að hlýindakaflar á vetrum geta orðið til þess að lúsinni fjölgi á ný. Getur það jafnvel vegið upp á móti vetrarkuldunum. Því virðist meðalhiti vetrar ráða meiru um stofnsveiflur sitkalúsar en einstakir kuldakaflar (Guðmundur og Halldór 2014).

Stofnsveiflur
Sveiflur á stofnstærð sitkalúsa eru tvenns konar. Annars vegar eru það sveiflur á milli ára en hins vegar sveiflur innan hvers árs. Sum árin koma upp svo stórir stofnar að til vandræða horfir. Má þá tala um faraldra og um þá fjöllum við nánar í næsta kafla. Á milli faraldra geta liðið nokkuð mörg ár þar sem lítið ber á lúsinni og skemmdum á hýsiltrjám af hennar völdum. Má kalla þetta langtímasveiflur (Guðmundur og Halldór 2014). Sveiflur innan hvers árs eru einnig töluverðar. Má kalla þær skammtímasveiflur. Þær ráðast meðal annars af styrk amínósýra í sáldæðum barrnálanna eins og greint var frá hér ofar, sem og hitastigi. Við það bætist að náttúrulegir óvinir hafa borist til landsins sem herja á lúsina. Um þá fjöllum við hér aðeins neðar. Þessir þættir geta haft umtalsverð áhrif á skammtímasveiflur sitkalúsar. Mest fjölgar lúsinni þegar styrkur amínósýra er mikill og ekki tiltakanlega kalt. Styrkurinn er mestur þegar tréð er í dvala. Þess vegna getur lúsinni fjölgað nokkuð hratt á vorin eða seinnipart vetrar áður en vöxtur trjánna hefst en svo dregur úr viðgangi um leið og trén fara að vaxa.

Faraldrar
Hér að framan höfum við nefnt þetta orð í tíma og ótíma. Nú skal sagt nánar frá faröldrum lúsarinnar. Sitkalúsafaraldrar hafa geisað á Íslandi annað veifið eftir að lúsin nam hér land. Þess á milli hafa stundum komið upp staðbundin tilfelli sem skemmt hafa einstaka skógarteiga eða jafnvel aðeins einstök tré. Síðan lúsin barst til landsins urðu sex stórir faraldrar og tveir staðbundnir á öldinni sem leið (Guðmundur og Halldór 1997) Á þessari öld hafa bæst við nýir faraldrar og fram til 2014 voru taldir hafa geisað 11 faraldrar á landinu (Guðmundur og Halldór 2014). Síðan bókin var skrifuð hafa umhverfisaðstæður verið með þeim hætti að almennilegra faraldra hefur ekki gætt, þótt misjafnlega mikið geti verið af lúsinni á milli ára. Það er rétt að nefna að lúsin getur valdið miklu tjóni í einstaka reitum þótt ekki sé um faraldur að ræða (Bergsveinn 2025).

Erlendis háttar svo til að sitkalúsafaraldrar ganga sums staðar yfir með nokkurra ára millibili. Þar er það að jafnaði þannig að faraldrarnir ganga yfir á vorin. Það er eðlilegt. Hlýir vetrarmánuðir og hár styrkur amínósýra ásamt fáum náttúrulegum óvinum úr hópi annarra skordýra og sveppa ýtir undir vorfaraldra.
Lengi vel var það ekki þannig á Íslandi.
Eftir milda vetur er oft mikið af lúsum á trjánum en þeim fjölgar hægt eftir að vöxtur trjánna hefst. Þar sem sitkalúsin þrífst ekki eins vel á trjám í vexti getur það gerst að lúsinni fari ekki að fjölga óhóflega fyrr en vexti trjánna lýkur. Þá geta orðið sitkalúsafaraldrar á haustin ef ekkert hefur slegið á stofninn yfir sumarið. Þannig var það lengi á Íslandi. Faraldrarnir komu síðsumars eða á haustin. Sennilegasta skýringin á þessu (fyrir utan öra tímgun á haustin) var skortur á náttúrulegum óvinum hér á landi yfir sumarmánuðina. Þá gat mikill fjöldi lúsa fjölgað sér stjórnlaust seinnipart sumars. Það var ekki fyrr en árið 2003 sem fyrsti vorfaraldurinn gerði usla á Íslandi (Guðmundur og Halldór 2014). Við komum að þessu aftur í kaflanum um náttúrulega óvini.
Eins og að framan er nefnt slá frostkaldir vetur verulega á stofn sitkalúsa. Því koma aldrei faraldrar eftir mikla frostavetur. Hvorki á vorin né haustin. Meðalhiti vetrarmánaða segir meira til um afföllin en einstaka kaldir dagar, því hlýir dagar á vetrum geta gert gott betur en að viðhalda lúsastofninum með auknum meyfæðingum.

Eftir að náttúrulegir afræningjar lúsarinnar bárust til landsins virðast skilyrðin vera best snemma á vorin, áður en vöxtur grenis hefst og sníkjuvespur og sníkjusveppir eru ekki komnir á kreik. Svo versna skilyrðin yfir hásumarið því þá er styrkur amínósýra í barri lítill og afræningjar herja á stofninn. Á haustin batna skilyrði lúsarinnar aftur áður en það fer að frysta að ráði. Á meðan náttúrulegir óvinir héldu stofninum ekki í skefjum var hættan á faröldrum mest á haustin, en nú er hún mest á vorin eða síðla vetrar ef veðrið er ekki nægilega kalt (Guðmundur og Halldór 2014).

Síðasti almennilegi faraldur sitkalúsar á Íslandi var vorfaraldurinn árið 2003. Það er þó of snemmt að afskrifa frekari faraldra. Þó má nefna nokkur atriði sem gætu haft hamlandi áhrif. Guðmundur Halldórsson (2024) dró þetta saman í þrjá punkta. 1. Til landsins eru komnir náttúrulegir óvinir sem halda stofninum í skefjum. 2. Sumrin hafa lengst og vaxtartími trjánna hefur einnig lengst. Lúsin vex verr á greni í góðum vexti.
3. Vorin eru ekki nægilega hlý fyrir alvöru vorfaraldra.
Breytingar á náttúru Íslands virðast því hafa bundið enda á hina slæmu haustfaraldra sitkalúsa en hnattræn hlýnun gæti boðað vorfaraldra á komandi árum. Staðbundnar skemmdir á þessari öld eru algengastir á vorin eða síðla vetrar.
Einkenni skemmda
Fyrstu einkenni skemmda af völdum sitkalúsa eru rauðbrúnar þverrákir á nálum. Síðan gulna nálarnar. Að lokum berst rauðbrúni liturinn yfir alla hina skemmdu nál og hún drepst og fellur af trénu. Oftast er þetta mest áberandi á neðstu og elstu greinunum nálægt stofni.
Þessi lýsing á fyrst og fremst við um sitkagreni. Á blágreni, sem er ekkert þolnara en sitkagreni, verða nálarnar dökkar frekar en ryðbrúnar áður en þær falla af. Ef mikið er af lús þá aukast einkennin og að lokum geta trén verið nánast berstrípuð ef mergð lúsa er næg. Í verstu tilfellum geta trén drepist (Guðmundur og Halldór 1997).

Dæmisaga að vestan
Skógfræðingurinn og skógarbóndinn Lilja Magnúsdóttir (2025) sagði okkur frá staðbundnum faraldri í Tálknafirði fyrrihluta ársins 2015. Í febrúar og mars voru trén orðin rauð og ljót. Þetta eru tré sem vaxa nánast fyrir opnu hafi en hafa dafnað mjög vel, enda þolir sitkagreni ágætlega að vaxa á slíkum svæðum. Kvæmið er Seward og trjánum var plantað árið 2002. Lilja tók meðfylgjandi myndir af skemmdum í Kvígindisfelli vorið 2015. Það var áður en vöxtur hófst. Er óhætt að fullyrða að þá litu trén illa út. Trén líta það illa út að rifja má upp orð Hákonar Bjarnasonar frá 1964 sem vísað er í hér fyrr í pistlinum. „Það var ömurlegt yfir að líta“. Lilja tók einnig myndir af þessum sömu trjám haustið 2016. Þá höfðu trén lokið við tvö vaxtartímabil frá því að ósköpin dundu yfir. Er skemmst frá því að segja að þá höfðu trén náð sér alveg ótrúlega vel. Árið 2022 tók hún myndir af sömu trjám. Sjá má að þau hafa náð sér að fullu og vaxið töluvert. Auðvitað dró faraldurinn úr vexti trjánna, en það stóð aðeins yfir í stuttan tíma.
Þrjár myndir frá Kvígindisfelli í Tálknafirði. Fyrsta myndin tekin í júní 2015 og sýnir miklar skemmdir. Miðmyndin var tekin í nóvember 2016 og þá sést í brúnar greinar en trén líta vel út. Sú síðasta er frá júlí 2022. Þá hafa trén náð sér að fullu. Myndir og upplýsingar: Lilja Magnúsdóttir (2025).
Náttúrulegir óvinir
Þegar nýir skaðvaldar berast á ókunnar slóðir geta þeir í mörgum tilfellum valdið miklu tjóni. Einkum á það við ef engir náttúrulegir óvinir eru til staðar. Skýrasta dæmið um þetta er væntanlega furulúsin, Pineus pini. Hún er evrópsk tegund sem öldum og árþúsundum saman hefur herjað á skógarfuru á heimaslóðum án þess að valda tiltakanlegum skaða. Hér á landi tókst henni nánast að útrýma skógarfuru. Tegundin hefur einnig valdið miklu tjóni á Hawaii og Austur-Afríku (Guðmundur og Halldór 1997).

Í Vestur-Evrópu er talið að yfir 50 tegundir rándýra, þrjár tegundir sníkjuvespa og sex tegundir sníkjusveppa herji á sitkalýs. Þessir náttúrulegu óvinir eru það fjölbreyttir að þeir valda vanalega hruni hjá lúsastofninum í byrjun sumars. Það fer saman við þann tíma sem breytt fæða fer að hamla vexti lúsa eins og áður er nefnt. Í lok sumars er stofninn orðinn það lítill að hverfandi hætta er á faraldri þótt þá séu fæðuskilyrðin hvað best fyrir lúsina og flestir afræningjar leggist í dvala. Lengi vel vantaði þessa náttúrulegu óvini lúsarinnar á Íslandi. Það er að líkindum ástæða þess að fram til ársins 2003 urðu faraldrar á Íslandi alltaf á haustin (Guðmundur og Halldór 2014).
Tvær myndir er sýna hvað verður um sitkalýs sem verða fyrir barðinu á sníkjuvespum. Vespurnar verpa inn í lýsnar og þar þroskast afkvæmið. Að lokum drepst lúsin og tútnar út þegar vespan vex innan í henni. Fyrri myndin sýnir einskonar sitkalúsamúmíu. Á seinni myndinni hefur vespan brotist út úr hýsli sínum og sést gatið vel. Myndir og upplýsingar: Edda Sigurdís Oddsdóttir.
Nú er hafið landnám dýra sem þrífast á lúsinni. Árið 2014 sögðu þeir Guðmundur og Halldór frá því að hér á landi hafi fundist fjórar tegundir sníkjusveppa sem herja á sitkalús og að minnsta kosti ein tegund sníkjuvespa. Þetta bendir til að stofnar náttúrulegra óvina séu farnir að hafa þau áhrif að verulega hafi dregið úr hættu á haustfaröldrum (Guðmundur og Halldór 2014). Brynja Hrafnkelsdóttir (2025) bætti við að sveifflugulirfur gæða sér einnig á sitkalús. Því má telja þær til óvina lúsarinnar.
Fyrri myndin er af lirfu kjarrsveifu í grenitré. Hún fagnar því að fá að éta sitkalýs. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir. Seinni myndin sýnir sveifflugu á Akureyri sem fékk sér sæti á munnþurrku. Til eru margar tegundir af þeim og óvíst er þessi leggist á sitkalýs. Mynd: Sig.A.
Svo má ekki gleyma því að ein tegund af fuglum treystir nær eingöngu á sitkalús sér til framdráttar þegar lítið annað er í boði. Þar er kominn minnsti fugl Evrópu, glókollur. Um hann höfum við fjallað í sérstökum pistli. Fyrir hann er sitkalúsin mikil blessun, því án hennar gæti hann varla lifað á okkar ísakalda landi. Hin síðari ár hafa fleiri fuglar lært að nýta sér þessa fæðuuppsprettu. Þar má nefna músarrindil og jafnvel auðnutittling. Hann er þó hrifnari af ýmsum fræjum.
Undanfarin ár hafa ekki orðið teljandi sitkalúsafaraldrar í skóglendi. Líklegt er að þakka megi glókollinum það. Utan skóga er minna af þessum fugli. Því hafa stundum komið upp staðbundnir faraldrar í litlum lundum, húsagörðum eða hverfum. Þeir standa sjaldan lengi yfir, því um leið og aðrir afræningjar eða sveppir finna lýsnar þá verður bundinn endi á faraldurinn. Á næstu árum má vel vera að upp komi litlir, staðbundnir faraldrar þar sem náttúrulega óvini vantar, en þeir láta slíka fæðuuppsprettu ekki lengi fram hjá sér fara.
Bæði músarrindill (fyrri mynd) og glókollur (seinni mynd) éta sitkalýs með mestu ánægju. Því sækja þeir báðir töluvert í greni. Nef beggja tegunda eru vel aðlöguð að því að tína upp lýsnar. Myndir: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Blessun
Í heiti pistilsins er talað um að líta megi á sitkalús sem blessun. Nú er komið að því að ræða um hana. Við vitum ekki til þess að nokkrum manni sé svo illa við barrtré á Íslandi að hann (burt séð frá kyni) líti á það sem sérstaka blessun þegar lúsafaraldrar herja á grenitré. Blessunin er önnur.
Í íslenskum greniskógum lifir fugl sem er aðeins um 6 g að þyngd. Hann er minnsti fugl Evrópu og hefur numið land á Íslandi.
Samkvæmt grein eftir Daníel Bergmann (2008) er fyrst vitað um þennan fugl á Íslandi árið 1932. Þá flæktist einn slíkur til Íslands og alla leið til Húsavíkur. Þar settist hann á höfuðið á barni sem var þar að leik. Þarna var kominn fyrsti glókollur sem sögur fara af á Íslandi. Ólíklegt er að hann hafi fundið æti á höfði barnsins.
Glókollar héldu áfram að berast til landsins en lifðu sjaldnast lengi. Þar voru veturnir afdrifaríkir. Árið 1995 (sumir segja 1996) barst stór ganga til landsins og vel kann að vera að það megi miða við það ár sem landnám hans á Íslandi. Þá var loksins komin fæða í íslenska skóga sem hann gat treyst á.
Fyrsta varpið var staðfest í Hallormsstaðaskógi ári síðar (Daníel 2008). Þessi litli fugl étur fyrst og fremst lítil skordýr. Á sumrin er enginn hörgull á þeim en á vetrum, þegar flest tré leggjast í dvala, er lítið að hafa. Þá getur þessi litli fugl soltið til bana eða frosið í hel þegar of mikið gengur á fituforðann. Þannig hefur það eflaust verið fyrrum með flesta þessara flækinga. Eftir að sitkalúsin barst til landsins og lagði undir sig búsvæði um land allt, vænkaðist hagur glókollsins. Talið er að hans aðalfæða séu lýs á grenitrjám eins og grenisprotalús og svo auðvitað sitkalús. Yfir veturinn treystir hann fyrst og fremst á sitkalýs þótt hann fúlsi ekki við stökkmori og öðru kviku ef það er í boði.
Fyrir glókollinn er sitkalúsin sú blessun sem varð til þess að hann getur lifað á Íslandi og glatt okkur mannfólkið. Það lítur út fyrir að stofn glókolls sveiflist í takt við stofn sitkalúsarinnar. Ef lítið er af henni er hart í búi hjá þessum litla fugli, en þegar lúsin er í hámarki og veldur miklum skaða er veisla hjá þessum litla, fagra fugli. Rétt er að geta þess að aðrir fuglar, sem verpt hafa lengi í íslenskri náttúru, hafa sumir hverjir lært að nýta sér þessa fæðuauðlind. Þeir fuglar eru þó ekki eins háðir lúsinni og glókollurinn og að auki er óvíst að þeir éti það mikið af lúsinni að át þeirra geti hægt á faröldrum eins og át glókollsins.

Samantekt
Sitkalús er lítil blaðlús sem þrífst á mörgum grenitegundum. Hún getur valdið miklu tjóni hjá grenitegundum sem hér eru ræktaðar og ættaðar eru frá Ameríku. Þess vegna er lúsin kennd við sitkagreni og kölluð sitkalús. Í greininni er sagt frá sögu lúsarinnar á Íslandi og lífsferli hennar. Áður fyrr gengu hér yfir faraldrar sitkalúsa sem ollu miklu tjóni. Slíkir faraldrar hafa ekki sést á landsvísu nokkuð lengi en staðbundnir faraldrar koma reglulega upp. Þrír þættir virðast ráða mestu um afdrif lúsarinnar og hvort faraldrar geti geisað eða ekki. Það eru hiti, fæða og náttúrulegir óvinir. Ef til vill hafa náttúrulegir óvinir lúsarinnar gert það að verkum að hefðbundnir haustfaraldrar eru nánast úr sögunni. Einn af þessum óvinum er glókollur. Hann er minnsti fugl landsins og gat ekki numið hér land fyrr en sitkalúsin var komin. Fuglinn er algerlega háður lúsinni yfir veturinn.
Þakkir fá þau sem lásu handritið yfir á ýmsum stigum að hluta eða heild og bentu okkur á hvað betur mátti fara. Þakkir fá einnig þau sem lánuðu okkur myndir, bentu á frekari heimildir og veittu okkur upplýsingar um lúsina og skemmdir af hennar völdum. Að lokum er rétt að þakka Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur fyrir prófarkalestur og þarfar lagfæringar.

Heimildir:
Bergsveinn Þórsson (2025): Myndir og munnlegar upplýsingar um meinta sitkalúsafaraldra þann 4. janúar 2025.
Brynja Hrafnkelsdóttir (2025): Upplýsingar og mynd í gegnum samskiptamiðla þann 7. janúar 2025.
Daníel Bergmann (2008): Landnám glókolls. Í Skógræktarritið 2008 (2): 8-13. Skógræktarfélags Ísland, Reykjavík.
Edda Sigurdís Oddsdóttir (2025): Upplýsingar og myndir í janúar 2025.
Einar Ó. Þorleifson og Daníel Bergmann (2006): Fuglalíf í skóginum að vetrarlagi. Í Skógræktarritið 2006 (2): 84-89. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.
Guðmundur Halldórsson (1995): Frostþol sitkalúsar. Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1995, bls. 98-101. Skógræktarfélag Ísland, Reykjavík.
Guðmundur Halldórsson (2024) Upplýsingar og ábendingar í gegn um samskiptamiðla í desember 2024.
Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson (1997): Heilbrigði trjágróðurs. Skaðvaldar og varnir gegn þeim. Iðunn, Reykjavík.
Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson (2014): Heilbrigði trjágróðurs. Skaðvaldar og varnir gegn þeim. 2. útgáfa, aukin og endurbætt. Iðunn, Reykjavík.
Hákon Bjarnason (1962): Starf Skógræktar ríkisins 1961. Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1962 bls. 71-85. Skógræktarfélag Ísland, Reykjavík.
Jón Gunnar Óttóson (1985): Sitkalús (Elatobium abietinum). Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1985 bls. 8-16. Skógræktarfélag Ísland, Reykjavík.
Lilja Magnúsdóttir (2025): Upplýsingar og myndir í gegnum samskiptamiðla þann 8. janúar 2025.
V. Sigurðsson, G. Halldórsson, A. Sigurgeirsson, Æ. Th. Thórsson & K. Anamthawat-Jónsson (1999): Genetic differentiation of the green spruce aphid (Elatobium abietinum Walker), a recent invader to Iceland. Í: Agricultural and Forest Entomology (1999) 1, 157-163. Blackwell Science Ltd.
Comments