top of page
Writer's pictureSigríður Hrefna Pálsdóttir

80 ára! Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga

Updated: Dec 3, 2023

Mánudaginn 19. apríl 1943 var Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga stofnað. Félagið fangar því 80 ára afmæli í ár og verður stiklað á stóru í sögu félagsins í þessum pistli. SS-Þ var stofnað sem sambandsfélag deilda en í dag eru 4 deildir. Agnes Þórunn Guðbergsdóttir formaður afmælisfélagsins á bestu þakkir skildar fyrir stóran hluta texta og ljósmynda.


Starfandi deildir innan félagsins eru Skógræktarfélag Fnjóskdæla, Svalbarðsstrandar, Reykdælinga og Reykhverfinga. Einnig er hægt að vera með beina aðild að félaginu en skráðir félagar eru 162.


Skógræktarfélag Suður Þingeyinga hefur undir sínum hatti tvo yndisreiti, Fossselsskóg og Hjallaheiði.


Í Fossselsskógi er fjölbreyttur gróður. Fremst á myndinni eru lindifurur. Myndin tekin í ágúst 2017 þegar Skógræktarfélag S-Þingeyinga hélt aðalfund fyrir Skógræktarfélag Íslands. Mynd: Sig.A.

Upphaf

Á aðalfundi Kaupfélags Þingeyinga 1942 var flutt tillaga þess efnis að félagið ákveði að gangast fyrir skógrækt á félagssvæði þess. Ekki var þessari tillögu vel tekið en þó var kosin 5 manna nefnd til að vinna að stofnun skógræktarfélags fyrir Suður-Þingeyjarsýslu.


Nefnd þessi hafði síðan samband við áhugamenn um skógrækt í flestum sveitum sýslunnar og hvatti til að stofnuð yrðu félög í hverjum hreppi, sem síðan yrðu deildir í væntanlegu skógræktarfélagi fyrir alla sýsluna. Nefndin boðaði síðan til fundar, sem haldinn var á Húsavík 19. apríl 1943. Mættu þar yfir 30 félagar úr 9 hreppum sýslunnar. Var þar ákveðin stofnun Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga, samþykkt lög fyrir félagið og kosin 5 manna félagsstjórn. Var þá þegar ákveðið að félagið yrði sambandsfélag deilda, sem stofnaðar væru í hverjum hreppi sýslunnar, eftir því sem hægt væri. Voru þá þegar stofnaðar 3 slíkar deildir og á næsta ári voru deildirnar orðnar átta. Seinna þegar mest var voru deildirnar tíu. Nú hefur þeim hins vegar fækkað og eru einungis fjórar árið 2023.


Merki félagsins sem stofnað var árið 1943


Fyrstu áratugina var aðalstarf félagsins að hvetja til og styrkja skógrækt á sem flestum jörðum í sýslunni og skógarreitirnir urðu liðlega eitt hundrað. Nýjum girðingum var komið upp með styrk frá félaginu, en girðingarnar voru í eigu bændanna og sáu þeir um kaup á plöntum og gróðursetningu, einnig með styrk frá félaginu. Auk þess var allmikið gróðursett í landsvæði er Skógrækt ríkisins sá um friðun á, svo sem í Fellsskógi í Kinn, á Ytrafjalli í Aðaldal og smáreit hjá Laugaskóla.


Gömlu heimilisskógarnir eru enn yndisreitir á fjölmörgum bæjum í sýslunni.


Formaður félagsins, Agnes Þórunn Guðbergsdóttir, ásamt frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta lýðveldisins. Myndin er fengin úr grein (1) úr Bændablaðinu um félagið.

Fossselsskógur

Fossselsskógur er sunnan við bæinn Vað, austanmegin við Skjálfandafljót, á leið frá Kinn yfir í Aðaldal. Eyðibýlið Fosssel við Skjálfandafljót er í um 100 metra hæð yfir sjó, landið umhverfis var girt árið 1951, en hafist var handa við að planta í birkiskóginn umhverfis Fosssel á vegum Skógræktarinnar á Vöglum árið 1958.


Árið 1960 tók Skógræktarfélagið á leigu af Skógræktinni helming af Fossselsskógi og 1966 fékk félagið leigusamning um allan skóginn eða um 90 hektara land. Næstu áratugi varð skógurinn aðalræktunarsvæði félagsins.


Hrútaberjalyng og hrútaber í skógarbotni.

Mest hefur verið plantað þar af rauðgreni, lerki, blágreni og stafafuru eða hátt í 400 þúsund plöntur. Þá eru fallegir þinlundir í skóginum. Í skjóli skógarins vex einnig berjalyng, hrútaber og sveppir.





Friðgeir Jónsson skógarbóndi í Ystafelli í Kinn vann við plöntun og grisjun í Fossselsskógi allt frá byrjun eða frá árinu 1958. Hann hafði frá árinu 1973 fasta umsjón með Fossselsskógi allt til ársins 1992. Árið 1989 byggði Friðgeir litið timburhús fyrir Skógræktarfélag S–Þingeyinga sem afdrep fyrir gesti og starfsmenn í Fossselsskógi. Húsið er nefnt Geirasel í höfuðið á honum.


Félagar og gestir Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga á opnum degi við Geirasel í Fossselsskógi. Ljósm. frá AÞG.

Konur úr ýmsum kvenfélögum innan Kvenfélagasambands Suður-Þingeyinga komu saman í Fossselsskógi 19. júní 1985. Tilefnin voru að kvennaáratugi Sameinuðu þjóðanna var að ljúka og 70 ára afmæli kosningaréttar kvenna Til minningar um þessa viðburði gróðursettu þær lerkitré. Þá var gróðursett sem svaraði einni plöntu fyrir hverja þingeyska konu, alls um 2000 trjám. Síðan þá er þessi lundur nefndur Kvennabrekka.


Gestir á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands undir Kvennabrekku í Fossselsskógi árið 2017. Mynd: Sig.A.

Markvisst hefur verið unnið að því að gera skóginn aðgengilegan sem útivistarsvæði fyrir almenning. Merktir göngustígar eru í skóginum og fræðsluskilti, m.a. neðan við leifar gamla bæjarins Fosssel. Þá hefur verið sett upplýsingamappa í Geirasel um ýmislegt er við kemur eyðibýlinu Fossseli og Fossselsskógi. Þá gáfu kvenfélögin á svæðinu áningarborð er sett var við svokallaða Kvennabrekku neðst í skóginum þar sem gott er að á.


Áningarborð neðan við Kvennabrekku í Fossselsskógi. Gjöf kvenfélaganna á svæðinu. Ljósm. AÞG.

Hjallaheiði í Reykjadal

Allt frá árinu 1995 hefur Skógræktarfélagið haft landspildu úr landi Hjalla í Reykjadal á leigu af ríkinu. Síðar var að gengið frá leigusamningi á heiðarlandi Hjalla sem er 613 hektara svæði. Í framhaldi af því var Skógræktarfélaginu veitt leyfi til stofnunar lögbýlisins Hjallaheiði. Í Hjallaheiði hefur verið plantað í um 90 hektara svæði samkvæmt samningi við Landgræðsluskóga sem lokið var 2014. Frá árinu 2008 til ársins 2015 var plantað í um 70 hektara svæði á vegum Norðurlandsskóga.


Markmið fyrr og nú

Eins og fram hefur komið þá voru markmiðin í byrjun að stuðla að skógrækt sem víðast á svæðinu og urðu heimareitir um 100 talsins. Hin síðari ár hefur umhirða og nýting skóganna í umsjón SS-Þ orðið aðalverkefni félagsins. Trén í Fossselsskógi hafa nú náð nýtingarstærð og munu næstu áratugi skila umtalsverðum viðarafla. Kolefnisbinding úr andrúmslofti er orðin mikilvægur hluti skógræktar á Íslandi og skógar félagsins binda árlega mikið kolefni og munu gera um langa framtíð.


Fjölmargar tegundir í Fossselsskógi. Mynd: Sig.A.

Fyrirsjáanlega verður grisjun, stígagerð og nýting skóganna mikilvægur þáttur í starfseminni. Mikilvægt að áfram verði gott aðgengi að skógum félagsins. Yfir sumartímann hittast félagar í skóginum og hlúa að plöntum, grisja og laga stíga. Hluti af þeirri umhirðu er að höggva og selja jólatré. Höfum við í SE selt jólatré fré félaginu.


Glæsilegur fjallaþinur í Fossselsskógi. Mynd: Sig.A.

Markmið félagsins er ekki síst að hlúa að skógunum sem félagið hefur umsjón með og bjóða fólk velkomið í þá þar sem það getur notið þess sem skógurinn hefur uppá að bjóða. Þar er kyrrð og ró, fuglasöngur og að hausti gnægð berja.


Í sumar mun félagið bjóða til afmælishátíðar í Fossselsskógi 24. júní og verður hún betur kynnt þegar nær dregur.


Á skógarstíg í Fossselsskógi. Ljósm. AÞG.

Tekjustofnar og styrktaraðilar

Félagið hefur tekjur af höggi jólatrjáa og einnig arði frá Veiðifélagi Skjálfandafljóts. Vinnan er mikið til byggð á sjálfboðaliðastarfi, velvild fyrirtækja á svæðinu og hinum ýmsu styrkjum.


Aðspurð um hvaða hlutverk skógræktarfélög í landinu hafi í samfélaginu í dag telur Agnes formaður það vera m.a. að veita þeim sem ekki hafa aðgang að landi tækifæri til þess að taka þátt í plöntun og umhirðu skóga og njóta gleðinnar sem fylgir ræktun.


Vinna sjálfboðaliða er stór þáttur í starfi Skógræktarfélagi Suður-Þingeyinga. Ljósm. AÞG.

Fastir liðir

Stjórnin hittist reglulega og haldnir eru aðalfundir til skiptis á svæði Skógræktarfélags Fnjóskdæla, Svalbarðsstrandar, Reykdælinga og Reykhverfinga.


Árlega eru skipulagðir dagar í skógarskoðun er gamlir skógarreitir og skógar víðs vegar um sýsluna eru heimsóttir. Skógar eins og Stafns- og Narfastaðskógur í Reykjadal, Ytra Fjall og skógurinn í Haga II, Aðaldal, Halldórsstaðaskógur í Bárðardal, skógarreitur við Hlíðarbæ í Reykjahverfi, við Breiðaból og Safnasafnið á Svalbarðsströnd og Fellsskógur í Kinn.


Einnig fléttast inn í starf stjórnar að miðla upplýsingum til undirdeilda og hjálpa þeim að halda utan um félagatal sitt.


Áningastaður við Kvennabrekku í Fossselsskógi. Ljósm. AÞG.

Samvinna

Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga er næsti nágranni Skógræktarfélags Eyfirðinga. Því er einboðið að vera með eitthvert samstarf þarna á milli og hefur það verið tekið upp hin síðari ár. SE selur jólatré frá nágrönnum sínum og félögin hafa haft samráð um viðburði á degi Lífs í lundi svo þeir skarist ekki og auglýst viðburðina saman.


Sigríður Hrefna Pálsdóttir, formaður SE og Agnes Þórunn Guðbergsdóttir, formaður SSÞ þann 25. júní 2022 aftan við nýgróðursetta eik. Myndin tekin á viðburðinum Líf í lundi þar sem SE gaf SSÞ eikina sem Sigríður Hrefna hafði ræktað upp af akarni frá Ås í Noregi. Mynd: Jonas Björk.

Afmæliskveðja

Skógræktarfélag Eyfirðinga óskar stjórnarfólki, félögum og velunnurum Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga innilega til hamingju með stórafmælið. Megi afmælisárið verða gæfuríkt og gjöfult. Við sendum ykkur okkar bestu skógræktarafmæliskveðjur!


Hibb-hibb - Húrra, húrra, húrra!


Við hvetjum auðvitað alla Suður-Þingeyinga og nágrenni til að ganga í félagið eða styrkja það á annan hátt á stórafmælisárinu. Hægt er að senda þeim kveðju á Facebook-síðu þeirra í tilefni dagsins. Fossselsskógur er útivistarskógur sem gaman er að heimsækja og þar ætlar afmælisfélagið að halda veislu 24. júní næstkomandi.


Fjölbreyttnin í Fossselskógi er mikil. Víða eru fallegir áningastaðir. Mynd: SHP.


Við hæfi er að ljúka pistlinum á orðum Agnesar formanns um hvað standi upp úr þegar horft er yfir 80 ára skógaræktarsögu félagsins:


„Þakklæti til þeirra sem hófu starfið í mótbyr og sýndu að hægt væri að rækta skóg á Íslandi og lögðu grunninn að þeim fallegu skógum sem við njótum í dag. Þeirra vinna sýnir okkur hvað er hægt og hvaða tegundir þrífast best og hverjar eru ekki jafn vel til þess fallnar að rækta hér."


Blómlegur skógur. Mynd: SHP.

Heimildir

1 - Bændablaðið - grein í tilefni aðalfundar SÍ sem haldinn var í Stóru-Tjarnarskóla árið 2017

164 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page