Föstudaginn 16. maí 1952, var Skógræktarfélag Selfoss stofnað á fundi í Tryggvaskála. Félagið fagnar því 70 ára starfsafmæli í ár rétt eins og Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu og Skógræktarfélag Djúpavogs sem við fjölluðum um í apríl. Hér verður stiklað á stóru í sjötíu ára sögu Skógræktarfélags Selfoss.
Upphaf
Hvatamenn að stofnun félagsins voru Ólafur Jónsson þáverandi formaður Skógræktarfélags Árnesinga og Sigurður Eyjólfsson ritari en í fyrstu stjórn Skógræktarfélags Selfoss sátu Þórmundur Guðmundsson, formaður, Gísli Bjarnason og Bergur Þórmundsson. Félagið varð strax deild innan Skógræktarfélags Árnesinga. Síðustu áratugi hafa verið um 140 félagar á skrá. Endurnýjun er hæg.
Skógarreitir
Hellisskógur við Selfoss hefur verið aðal verkefni félagsins síðustu 36 árin, en áður hefur það komið að uppbyggingu skógarreits á Snæfoksstöðum í Grímsnesi og útivistarsvæðis á Rauðholti í miðjum Selfossbæ.
Hellisskógur
Svæðið var afhent Skógræktarfélagi Selfoss við undirritun samnings á milli skógræktarfélagsins og Selfossbæjar 1. október 1985 og var þá 53,8 ha að stærð. Svæðið var strax nefnt Hellisskógur þó ekki væri þar neinn skógur þá. Landið var á þeim tíma mjög illa farið eftir langvarandi ofbeit hrossa og sauðfjár. Mýrlendið var víða gróðurlítið, útsparkað drullusvað og í holtunum voru stór rofaborð.
Tvisvar hefur svæðið verið stækkað síðan og er 125 ha í dag. Árlega er plantað um 1500 plöntum. Hellisskógur telst nú að mestu fullplantað svæði en stefnt er að verulegri stækkun innan tíðar. Árlega eru grisjaðir nokkrir hektarar, mest birkiskógur. Fyrir utan gróðursetningar hafa verið lagðir akvegir og göngustígar um svæðið, settir upp bekkir og borð.
Skógurinn afmarkast af Hellisgili að austanverðu og liggur þar að landamörkum Selfoss og Laugarbakka. Að ofanverðu fylgja mörkin Biskupstungnabraut til móts við gámasvæði bæjarins og að neðanverðu afmarkast svæðið af Ölfusá, að efstu húsum í hverfinu utan ár.
Frá árinu 1986 hefur verið plantað um 350.000 plöntum af 51 tegund. Allar þessar tegundir er að finna í trjásafni sem komið var upp í Hellisskógi á árunum 1991-1997. Júlíus Steingrímsson, einn af velgjörðarmönnum félagsins, greiddi allan kostnað vegna trjásafnsins. Frá upphafi framkvæmda í Hellisskógi hafa sjálfboðaliðar á vegum skógræktarfélagsins árlega unnið tvö til átta kvöld við plöntun og önnur störf. Nokkur félagasamtök og klúbbar hafa einnig komið og plantað. Hópar frá grunnskólum og unglingavinnu á Selfossi hafa plantað í Hellisskóg flest ár.
Skógurinn dregur nafn sitt af býlinu Helli sem var hjáleiga jarðarinnar Fjalls. Eins og algengt er í nafngiftum íslenskra bæja þá dregur bærinn nafn sitt af sérkenni í landslaginu en í landi Hellis er að finna tvo hella sem báðir hafa verið notaðir sem fjárhellar, Stóri-Hellir og Litli-Hellir. Fram til ársins 1960 gengdi Stóri-Hellir hlutverki fjárhlöðu en þá var fjárhús fyrir framan hann. Í dag sjást lítil ummerkið fjárbúskapar við Stóra-Helli en grafið var úr hellinum og þar útbúinn áningarstaður með bekkjum og eldstæði. Fjárhústóftir kunna þó enn að leynast í hólnum framan við hellismunnan.
Markmið fyrr og nú
Frá upphafi var markmið félagsins að efla trjárækt innan Selfossbæjar og planta skógi á ræktunarsvæðum bæjarins og Skógræktarfélags Árnesinga. Tilgangi sínum huggðist félagið ná með því að veita félagsmönnum fræðslu um skóg- og trjárækt með fyrirlestrum, myndasýningum, leiðbeiningum og ferðum innan héraðs og utan.
Áður fyrr var félagið mikið í fræðslu og kynningarstarfi fyrir bæjarbúa á Selfossi. Einnig voru árlegar dagsferðir í nærliggjandi skógarsvæði. Frá stofnun og fram til ársins 1970 var aðal starfssvæði félagsins í Rauðholts-girðingunni (á núverandi íþróttavallarsvæði og Gesthúsalóð). Sú skógrækt var ítrekað eyðilögð í sinueldum og loks tekin undir aðra starfsemi. Á árunum 1975 - 1984 var einkum plantað í reit félagsins ofan við Nautavakir á Snæfokssöðum í Grímsnesi. Þar stendur nú myndarlegur furuskógur. Frá árinu 1985 hefur starfsemin verið í Hellisskógi við Selfoss. Undanfarið hefur félagsstarfið verið meira tengt plöntun og vinnu við uppbyggingu á stóru útivistarsvæði í Hellisskógi.
Uppbygging á Hellisskógi er mesta afrekið segir formaður Skógræktarfélags Selfoss aðspurður því er stendur upp úr í 70 ára sögu félagsins. Á svæðinu var engin trjáplanta þegar hafist var handa árið 1986, aðeins útsparkaður bithagi og mikið um rofsvæði á þurrum holtum, en mýrarnar víða drullusvað. Hellisskógur hefur smám saman orðið eitt helsta útivistarsvæði Selfyssinga rétt eins og stefnt var að í upphafi.
Tekjustofnar og styrktaraðilar
Eins og þegar hefur verið nefnt hér að ofan þá hefur vinna sjálfboðaliða félagsmanna og annarra áhugasamra verið ómetanleg í að rækta Hellisskóg. Félagið hefur líka fengið árlega fjárveitingu frá sveitarfélaginu Árborg en notar einnig eigin sjóði ef með þarf.
Afmæliskveðja
Skógræktarfélag Eyfirðinga óskar félögum í Skógræktarfélagi Selfoss innilega til hamingju með stórafmælið. Megi skógræktin vaxa og dafna og við vonum að afmælisárið verið hið gjöfullegasta og skemmtilegasta.
Hibb-hibb - Húrra, húrra, húrra!
Við hvetjum auðvitað alla á Selfossi til að ganga í félagið eða styrkja það á annan hátt á stórafmælisárinu. Hægt er að senda þeim kveðju á facebook-síðu þeirra í tilefni dagsins. Hellisskógur leynir á sér og þangað ættu allir leggja leið sína til að njóta útivistar.
Höfundur þakkar Erni Óskarssyni, núverandi formanni Skógræktarfélags Selfoss, kærlega fyrir hjálpina með öflun heimilda fyrir pistilinn. Örn hefur ennfremur tekið flestar ljósmyndirnar sem eru birtar í pistlinum.
Heimildir
Fornleifaskráning í Helli, Ölfushreppi. (2004). Fornleifastofnun Íslands. http://www.hellisskogur.is/starfsskyrslur/FS248_04121a.pdf
Hellisskógur. (á.á.). Skógræktarfélag Selfoss. http://www.hellisskogur.is/hellisskogur.html
Commentaires