Fyrstu framkvæmdir Skógræktarfélags Eyfirðinga voru að friða skógarleifar í Garðsárreit með girðingu árið 1931. Um reitinn má meðal annars lesa hér. Í ár eru því liðin 90 ár frá því að reiturinn var girtur af. Því er vel við hæfi að velja eitt af trjánum þar sem #TrévikunnarSE. Tvisvar áður hafa tré úr reitnum hlotið þennan heiður. Í fyrsta lagi birtum við pistil um sjálfsánar plöntur í reitnum. Hann má lesa hér. Að auki höfum við valið hina stóru alaskaösp sem tré vikunnar, enda er hún nánast orðin einkennistré reitsins . Um hana má fræðast hér. Í skógargöngu í fyrra mældi Bergsveinn Þórsson þessa ösp og kom þá í ljós að hún er orðin 18 metrar á hæð og þvermál krónunnar er 16,5 metrar. Ummál stofnsins í brjósthæð er 2,25m. Við í félaginu höfum, svona okkar á milli, gefið þessari ösp sérnafn. Hún heitir Steinunn eftir fyrrverandi húsfreyju á Garðsá.
Skógarfuran
Nú, á afmælisári, birtum við þriðja pistilinn um tré í þessum reit. Sem tré vikunnar veljum við þessa ljómandi fallegu skógarfuru (Pinus sylvestris).
Ef gengið er inn í skógarreitinn og að frægu öspinni Steinunni þarf ekki annað en að ganga um tvo tugi metra í átt að gilinu til að komast að þessari furu. Þetta er þriðja skógarfuran sem fær þennan heiður. Sú fyrsta er við Spítalastíg og má fræðast um hana hér. Númer tvö í þessari upptalningu er í Kjarnaskógi og má lesa um hana hér.
Örlög skógarfuru
Í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar er pistill um Garðsárreit. Má þar meðal annars sjá tölur yfir gróðursett tré í reitnum frá árunum 1952-1971. Þar kemur í ljós að skógarfuran er þriðja algengasta gróðursetta tréð í reitnum á eftir rauðgreni og sitkagreni. Alls mun hafa verið plantað 1900 skógarfurum í reitinn. Ekki fer mikið fyrir þeim í dag. Eins og fram kemur í báðum þeim pistlum sem áður hafa birst um tegundina hjá félaginu voru miklar vonir bundnar við skógarfuruna á sínum tíma. Svo gerðust þau tíðindi að furulús, Pineus pini, barst til landsins og nánast stráfelldi allar fururnar. Þessi lús leggst á svokallaðar tveggjanála furur (sem hafa tvær eða þrjár nálar í knippi) en lætur fimm nála furur í friði. Um muninn á þessum furum má lesa hér, þar sem fjallað er um furuættkvíslina.
Furulúsin fór svo illa með skógarfurur í Garðsárreit að aðeins örfáar furur eru nú eftir í reitnum og þessi er sú glæsilegasta af þeim. Þetta var mikið áfall á sínum tíma og lagðist ræktun skógarfuru að mestu af á landinu. Að auki var stórfelldur dauði þeirra til þess að margir styrktust í þeirri trú sinni að ekki væri hægt að rækta skóga á Íslandi.
Nú vitum við betur.
Um tegundina
Tegundin skógarfura er talin afar gömul. Talið er að hún hafi þróast austur í Síberíu og borist þaðan til Evrópu. Hún er víða villt í skógum í Norður- og Mið-Evrópu og setur mikinn svip á landið. Í norðanverðri álfunni er hún eina villta furutegundin en í Ölpunum eru einnig til aðrar furutegundir. Víða um álfuna er hún mikilsvert nytjatré og er víða aðal timburtréð. Áður fyrr var náttúruleg útbreiðsla skógarfura jafnvel enn meiri en hún er í dag. Vegna búsetu mannsins hefur villt skógarfura alveg horfið í Danmörku, Englandi og sjálfsagt víðar. Í Skotlandi lifur hún aftur á móti góðu lífi og er á enskri tungu kennd við Skotland og kallast Scots Pine eða Scotish Pine á ensku. Á íslensku notum við heitið sem furunni er gefið á latínu en viðurnefnið sylvestris vísar til skóga en silva merkir skógur á því tungumáli. Víða í Skotlandi má bæði sjá stakar, glæsilegar, gamlar skógarfurur sem og skógarteiga. Get ég ekki stillt mig um að skella hér með tveimur myndum sem teknar eru í hálöndum Skotlands, nánar tiltekið í Balmoral Park.
Skógarfurur mynda víða skóga í Skotlandi. Þarna er annar trjágróður framan við fururnar.
Stakar skógarfurur geta verið óhemju glæsilegar.
Skógarfuru hefur víða verið plantað utan náttúrulegs útbreiðslusvæðis, svo sem í Norður-Ameríku og á Nýja-Sjálandi þar sem hún hefur verið ræktuð í stórum stíl. Myndin hér fyrir neðan er af ungum skógarfurum austur í Skriðdal en skógræktarmenn hafa lítillega verið að reyna aftur við þessa tegund eftir langt hlé.
Fyrir 2-3 milljónum ára, á svokölluðu Pliocene tímabili, óx á Íslandi furutegund sem líktist mjög skógarfuru. Hafa steingervingar hennar fundist við Dyrfjöll á Héraði. Því má jafnvel segja að með því að planta skógarfurum séum við að endurheimta horfnar furur á Íslandi.
Auðveldast er að þekkja skógarfurur frá öðrum furum á barkarlitnum. Eins og sjá má á myndum er hann rauðgulur, einkum ofan til. Engar aðrar furur hafa þennan barkarlit og má því þekkja þær af löngu færi. Að vísu eru mjög ungar skógarfurur ekki með þennan lit, eins og sjá má, en þær eru ekki margar á Íslandi.
Texti og myndir: Sigurður Arnarson.
Σχόλια