Í vikulegum pistlum okkar um tré hefur okkur orðið skrafdrjúgt um ýmsar reynitegundir. Auðvitað höfum við fjallað um íslenska ilmreyninn eða reyniviðinn en einnig höfum við fjallað um ýmsar aðrar reynitegundir. Ber þar einna mest á tegundum frá Asíu sem mynda svokallaðar örtegundir sem stunda geldæxlun og finnast aðeins á afmörkuðum svæðum. Það er samt hreint ekki þannig að allar asískar tegundir séu örtegundir. Tré vikunnar er ein af þeim asísku reynitegundum sem treystir á hefðbundna kynæxlun og vex á stóru svæði.
Hirðingjareynir, Sorbus tianschanica Rupr., er snotur tegund sem að ósekju mætti vera meira ræktuð í görðum og skógarteigum á Íslandi.

Blómin á hirðingjareyni eru mjög snotur. Mynd: Sig.A.
Heimkynni
Tegundin vex á nokkuð stóru svæði í Mið-Asíu. Það þarf ekki einu sinni að miða við allan þann fjölda af örtegundum sem þar vaxa á litlum, afmörkuðum svæðum til að sjá það. Hirðingjareynir vex í Asíulýðveldunum sem áður voru hluti af Sovétríkjunum og eru stundum nefnd einu nafni stanlöndin eða Langtíburtistan því þau enda öll á viðskeytinu -stan. Rétt er þó að taka það fram að tréð vex ekki villt í Trumpistan við Ameríkuflóa. Hirðingjareynir vex einnig í Afganistan og Pakistan sem hafa sömu endingu og gömlu Sovétlýðveldin og svo í Kashmirhéraði við landamæri Indlands og Pakistan og einnig í Kína (McAllister 2005). Hann vex villtur hátt til fjalla á þessu svæði. Vanalega er hann í 2000 til 3200 metra hæð. Oftast vex hann í fjalladölum og gjarnan meðfram ám eða í skógarjöðrum þar sem birtu nýtur.
Inn á þetta kort frá World Flora on Line eru þau landsvæði merkt þar sem hirðingjareynir vex. Þarna eru Kazakhstan, Kirgistan, Pakistan, Afganistan, Uzbekistan, Taszhikistan, vesturhluti Himalaja (Kashmir) og Xinjiang og Qinghai í Kína.
Útlit
Þetta er tegund sem myndar nokkuð stóra runna eða lítil tré. Í heimkynnum sínum verður hún allt að 10 m há. Oft eru plönturnar þó töluvert minni og í kínverskri flóru er sagt að tegundin verði aðeins 5 metra há. Bendir þetta til mikillar erfðafjölbreytni innan hennar.
Hirðingjareynir í september 2018. Myndir: Sig.A.
Hér á landi eru plönturnar jafnan klipptar þannig að þær myndi lítil tré. Oftast nær halda þau krónu sinni alveg niður að jörðu ef birta er næg.
Eitt af því sem einkennir hirðingjareyni er að ársprotarnir glansa óvenjumikið. Þeir geta verið rafbrúnar á litinn. Eldri greinar verða grábrúnar og stofninn verður grár og hann springur með aldrinum.
Brumin eru keilulaga, rauðleit og allt að 10 mm að lengd og bláendinn er áberandi ljóshærður ef ekki beinlínis gráhærður eins og sjá má á myndinni.
Brum hirðingjareynis eru allt að 10 mm löng, rauð eða rauðbrún að lit með hvít hár. Hárin eru mest áberandi á endum en eru einnig á jöðrum brumhlífarblaðanna. Oft hjálpar það til við greiningu trjátegunda að þekkja brumin. Mynd: Sig.A.
Blöðin eru fjöðruð eins og svo algengt er innan reyniættkvíslarinnar. Nú er meira að segja komið í tísku að segja að þau reynitré sem ekki hafa fjöðruð blöð séu alls ekki reynitré, heldur tilheyri öðrum, skyldum ættkvíslum. Við breytum samt ekki rótgrónum nöfnum trjáa, heldur höldum áfram að kalla þau reynitré, burt séð frá lögun laufanna og breytingum á fræðiheitum.
Blöðin eru glansandi og fallega græn á efra borði en aðeins mattari á neðra borði. Þau eru um 13-15 cm löng og vanalega með 5-7 pör af lensulaga smáblöðum. Smáblöðin eru fremur mjó miðað við reyni sem við þekkjum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Fyrri myndin sýnir Efra og neðra borð laufanna en sú síðari sýnir lauf á grein. Sjá má að smáblöðin skarast ekkert á hverju laufi og um miðbik laufsins eru smáblöðin stærst. Þetta eru mikilvæg greiningaratriði. Blöðin eru ekki nema um 8-10 mm breið en bilið á milli þeirra er oftast meira en 10 mm. Fyrri mynd: Sig.A., seinni mynd er fengin af vef Lystigarðsins en hana tók Björgvin Steindórsson.
Blóm og aldin
Blómin minna töluvert á blómin á kasmírreyni, S. cashmiriana. Þau eru stór og mynda sambærilega sveipi. Hjá báðum tegundunum eru blómin hvít eða örlítið út í bleikt. Stundum myndar hirðingjareynir mun minna af blómum hér á landi en kasmírreynir og þá verða sveipirnir ekki jafnglæsilegir. Annars eru blómin um 15-20 mm í þvermál og blómsveipirnir hanga á áberandi hátt.

Blómsveipur að vori. Myndin fengin af vef Lystigarðsins en hana tók Björgvin Steindórsson.
Aldinin eru skarlatsrauð ber. Þau eru nánast hnöttótt og verða um 8,5 til 9 mm í þvermál. Fullþroskuð fræ eru brúnleit. Tegundin fjölgar sér með hefðbundinni kynæxlun en ekki með kynlausri geldæxlun eins og margar reynitegundir á heimaslóðum hirðingjareynis gera.
Tegundin er tvílitna (2n = 34) ef einhver hefur áhuga á því (McAllister 2005, Flora of China 2024).

Reynsla
Í bók sinni um reyniættkvíslina segir Hugh McAllister (2005) að hingað til hafi þessi tegund ekki reynst vel á Bretlandseyjum. Það lýsir sér í því að tegundin vex þar fremur hægt og lítið. Að auki reynist tegundin ekki eins þurrkþolin og vænta mætti miðað við heimkynnin. McAllister veltir því fyrir sér hvort þetta meinta vandamál stafi af því að sumarhitinn sé ekki réttur eða hvort það sé vegna þess að veturnir séu ekki nægilega kaldir.

Hirðingjareynir í Kirgistan í um 1900 metra hæð yfir sjávarmáli. Þarna vex þetta tré á þurrum stað nálægt á sem heitir Kokomeren. Myndin fengin héðan þar sem sjá má fleiri myndir af hirðingjareyni í Kirgistan. Myndina tók Александр Науменко.
Margt bendir til að McAllister hafi rétt fyrir sér og að England sé of hlýtt fyrir þessa tegund. Annaðhvort eru sumrin of hlý eða að veturnir ekki nægilega kaldir þannig að tréð fær ekki þá hvíld sem það þarf. Það sést meðal annars á því að á síðunni Trees and Shrubs Online segir að tegundin vaxi mun betur í Skotlandi en í Englandi. Þetta gefur okkur góðar vonir um að hirðingjareynir henti enn betur á Íslandi, því hér er almennt heldur svalara en á Bretlandseyjum.
Hirðingjareynir í glæsilegum haustlitum á Akureyri. Að baki hans má sjá úlfareyni sem er þakinn berjum. Mynd: Sig.A.

Ræktun á Íslandi
Hér á landi er tegundin ræktuð í venjulegri garðamold og sjaldan á mjög þurrum svæðum. Best fer á að hafa hana á sólríkum stað eða í hálfskugga. Við framangreindar aðstæður vex tegundin prýðilega og virðist nokkuð vel aðlöguð íslenskum aðstæðum. Hér virðist bæði hitastig sumars og vetrarkuldar henta trénu. Komið hefur í ljós að hirðingjareynir er hér fremur harðgerður og laus við kal í öllu venjulegu árferði. Samt fer hann nokkuð snemma af stað, svo sennilega er líklegra að hann verði fyrir vorkali en haustkali. Oftast nær virðist það þó ekkert há þessum reyni þó blöðin verði ögn brún í vorfrostum. Helsti galli hirðingjareynis á Íslandi er sá að sum árin blómstrar hann fremur lítið. Sem dæmi má nefna að vorið 2024 blómstruðu ýmsar vorblómstrandi tegundir bæði mikið og lengi á Akureyri. Þar með talið flestar þær asísku reynitegundir sem finna má í bænum. Undantekningin frá því var hirðingjareynirinn. Hann myndaði aðeins örfá blóm. Ef til vill skemmdust blómvísarnir í vorfrosti.
Þar sem tegundin vex á nokkuð stóru svæði má vel ímynda sér að hingað geti borist kvæmi sem henti jafnvel enn betur en þau eintök sem nú eru til í landinu. Slík leit hefur ekki farið fram. Í Lystigarðinum á Akureyri eru tvær plöntur af þessari tegund. Önnur er planta sem óx upp af fræi frá Nordisk Genbank og var gróðursett í beð árið 1990. Það tré stendur sig með stakri prýði.
Haustlitirnir eru gulrauðir og birtast það snemma að ekki er hætta á haustkali. Mætti ekki rækta svona tré í görðum, skógarjöðrum og -rjóðrum? Mynd: Sig.A.
Ruprecht
Þegar fræðiheiti hirðingjareynis er nefnt fyrst í þessum pistli stendur Rupr. þar fyrir aftan. Rétt er að segja aðeins frá því, hér í lok pistils.
Sá sem gaf þessari tegund nafn var Austurríkismaður sem hét Franz Josef Ruprecht (1814-1870). Þótt Ruprecht teldi sig Austurríkismann þá fæddist hann í Þýskalandi. Hann var skipaður safnvörður yfir plöntusafni rússnesku vísindaakademíunnar árið 1839 og starfaði lengst af í skjóli Rússakeisara og gegndi þar nafninu Frants Ivanovič Ruprekht. Á rússnesku mun það vera skráð sem Франц Ива́нович Ру́прехт eins og allir vita.

Mynd af Ruprecht af Wikipediusíðu um kappann. Myndina gerði Ivan Nikolaevich Kramskoi.
Ruprecht lýsti miklum fjölda plantna og gaf þeim nöfn eins og sjá má á þessari síðu þekkjast þau á því að skammstöfunina Rupr. er gjarnan að finna á eftir nöfnunum. Hann ferðaðist töluvert um miðhluta og austustu hluta keisaradæmisins og safnaði þar plöntum. Þar á meðal fór hann í leiðangur til Alaska sem þá var hluti af Rússlandi. Flestar þær plöntur, sem hann gaf nafn, vaxa í Mið- og Austur-Asíu. Hirðingjareynir er einmitt ein af þeim. Það var árið 1869 sem hann lýsti tegundinni af grasafræðilegri nákvæmni og gaf henni nafn. Þá átti hann aðeins eftir eitt ár ólifað.

Hirðingjareynir í blóma í Lystigarðinum. Myndin fengin af vef Lystigarðsins en hana tók Björgvin Steindórsson.
Heimildir
Hugh McAllister (2005): The Genus Sorbus. Mountain Ash and other Rowans. The Royal Botanic Gardens, Kew.
Flora of China (2024): Sorbus tianschanica. Sjá: Sorbus tianschanica in Flora of China @ efloras.org Sótt 18. júlí 2024.
Lystigarðurinn á Akureyri (án ártals): Sorbus tianschanica. Sjá: Garðaflóra | Lystigarður Akureyrar (akureyri.is). Sótt 18. júlí 2024.
Trees and Shrubs Online (2024): Sorbus tianschanica. Sjá: treesandshrubsonline.org/articles/sorbus/sorbus-tianschanica/. Sótt 18. júlí 2024.
Þakkir fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir vandaðan yfirlestur.
Comments