top of page

Þallarætt

Writer's picture: Sigurður ArnarsonSigurður Arnarson

Updated: May 26, 2023

Í síðustu viku lofuðum við að fjalla örlítið um ættfræði trjáa í þættinum #TrévikunnarSE. Þá kynntum við helstu hugtök er málið varðar. Nú er komið að fyrstu ættinni. Það er þallarætt eða Pinaceae. Innan þeirrar ættar eru nokkrar ættkvíslir sem eiga sína fulltrúa í íslenskum skógum. Má þar nefna furur (Pinus), þin (Abies), greni (Picea), lerki (Larix), degli (Pseudotsuga) og þallir (Tsuga). Í öllum vönduðum ritum er það svo að ættkvíslirnar eru skrifaðar með skáletri (italic) en ættirnar ekki.








Hrörnar þöll sú er stendur þorpi á

Algengt er að ættir taki nafn af einhverri lykilættkvísl. Í þessu tilfelli er það furuættkvíslin (Pinus) sem gefið hefur ættinni nafnið Pinaceae. Aftur á móti heitir ættin þallarætt á íslensku en þallir (Tsuga) eru af allt annarri ættkvísl. Þetta á sér þá einföldu skýringu að í íslensku er nokkuð algengt að taka upp gömul orð, sem dottin eru úr málinu, og endurnýta. Þetta á t.d. við um orðið skjár eins og þekkt er. Orðið þöll er gamalt norrænt orð sem merkir fura. Sama stofn má finna í sænska orðinu yfir furur: Tall. Þetta gamla orð hafði vikið fyrir orðinu fura og var endurnýtt á ættkvíslina sem á latínu kallast Tsuga. Gamla merkingin sést í heiti ættarinnar sjálfrar; Þallarætt.

Þallarættin er langt í frá ein þeirra ætta sem hefur hvað flestar ættkvíslir. Öðru nær. Þær eru fremur fáar en þeim mun fleiri tegundir eru innan hennar. Samkvæmt nýjustu talningu eru það 225. Þar af eru 109 innan furuættkvíslarinnar. Það gerir þessa ætt að þeirri tegundaríkustu innan berfrævinga (barrtrjáa) og furur að tegundaríkustu ættkvíslinni innan sama hóps. Innan þessarar ættar eru þær þrjár ættkvíslir sem innihalda mikilvægustu timburtré í heimi. Það eru furur (Pinus), þinir (Abis) og greni (Picea). Ætt þessi er hánorræn og nánast allar vaxa eingöngu norðan miðbaugs. Það eru tré af þessari ætt sem er meginuppistaðan í hinum stóru, víðáttumiklu barrskógum sem mynda belti allt í kringum hnöttinn. Frá Evrópu, austur um alla Norður-Asíu og Síberíu og einnig norðurhluta Norður-Ameríku. Þetta belti hefur verið kallað barrskógabeltið. Að auki vaxa tré af þessari ætt til fjalla sunnan við barrskógabeltið. Aðrar ættir og ættkvíslir finnast í mun minna mæli á þessu víðáttumikla svæði.


Barrtré bera köngla

Sitthvað skilur að hinar ýmsu ættkvíslir innan ættarinnar en annað er eins eða keimlíkt. Öll eru þessi tré barrtré og allar ættkvíslirnar sem ræktaðar eru hér á landi eru sígrænar nema lerkiættkvíslin (Larix) sem fellir barrið á haustin eins og hvert annað lauftré. Öll bera tré af þessari ætt köngla sem eru eins upp byggðir. Oftast nær hanga þeir niður á greinunum en á þin (Abis) standa þeir uppréttir á greinunum. Allar tegundirnar innan ættarinnar hafa einkennandi vaxtarlag. Brumin myndast á haustin þegar vexti líkur og opnast á vorin og upp frá því vex einn sproti upp á við en aðrir til hliðanna. Hver sproti myndar síðan brum á haustin. Því má nokkuð auðveldlega skoða hæðarvöxt allrar þallarættarinnar nokkur ár aftur í tímann á einfaldan hátt. Aðrir berfrævingar vaxa ekki á þennan hátt. Hver ættkvísl innan ættarinnar hefur svo sín einkenni og verður frekar fjallað um þau síðar.

145 views0 comments

Recent Posts

See All

Commenti


bottom of page