Á milli húsanna við Bjarmastíg 8 og 10 stendur stórt og mikið lerkitré. Það er nokkuð frjálslega vaxið og minnir að því leyti á evrópulerki, Larix decidua. Samt er þetta rússa- eða síberíulerki, sem nú eru taldar til sömu tegundar: Larix siberica. Hvað veldur því þá að lerkið er svona vaxið?
Arfur Akureyrarbæjar
Félagsskapurinn Arfur Akureyrarbæjar heldur úti Facebooksíðu. Til að fá upplýsingar um þetta tré reyndist okkur vel að spyrja þann fróða hóp sem þar er saman kominn. Flest af því sem hér er sagt er frá meðlimum hópsins. Einnig höfðum við samband við Kristínu Þorgeirsdóttur sem fæddist árið 1939 og flutti í húsið árið 1965 er hún gekk í hjónaband með Páli Rist sem þá bjó í húsinu.
Bjarmastígur 10
Þessi merkilegi þríforkur tilheyrir lóðinni við Bjarmastíg 10 og því er ekki úr vegi að skoða sögu þess húss. Maður er nefndur Arnór Bliki Hallmundsson. Hann er grúskari mikill og heldur úti bloggsíðunni https://arnorbl.blog.is þar sem hann segir frá merkum húsum í bænum. Hann hefur meðal annars skrifað um þetta hús og má lesa um það hér.
Þann 1. nóvember 1948 hafði verið sótt um, í nafni Útvegsbankans, að reisa einbýlishús á lóð í eigu bankans við Bjarmastíg. Það var samþykkt. Útvegsbankinn var til húsa í Hafnarstræti 107 sem liggur næst fyrir austan og neðan þessa lóð. Það var svo árið 1952 að bankastjórinn, Svavar Guðmundsson og Sigrún kona hans, reistu þetta hús eftir teikningum Bárðar Ísleifssonar. Hefur það eflaust haft þægindi í för með sér fyrir bankastjórann að búa á næstu lóð við bankann. Sigrún var dóttir Halldóru Stefánsdóttur og Páls Guðmundssonar, en var alin upp hjá Guðrúnu Björnsdóttur, skólastjóra frá Kornsá og Þormóði Eyjólfssyni, söngstjóri Karlakórsins Vísis á Siglufirði. Hún kenndi sig við fóstra sinn og kallaði sig Sigrúnu Þormóðs. Það varÁgúst H. Bjarnason (26.7. 2023) sem benti okkur á þetta.
Skömmu fyrir 1960, eða þar um bil, seldu þau hjónin húsið. Þangað flutti Páll Rist og er hann kvæntist Kristínu Þorgeirsdóttur flutti hún í húsið. Hún segir að þá hafi verið fimm lerkitré við húsið og að þeim hafi síðar verið fækkað og voru þrjú er hún flutti úr húsinu löngu síðar. Nú er þarna aðeins þetta eina lerkitré og nýtur það sín vel.
Haustkal
Oft má þekkja í sundur evrópulerki og síberíulerki (sem einnig kallast rússalerki) á því að hið fyrrnefnda stendur grænt langt fram eftir hausti á meðan hið síðarnefnda fer í haustliti. Þetta leiðir iðulega til þess að evrópulerkið hefur ekki lokið vexti sínum þegar frystir fyrst á haustin. Það getur leitt til þess að það verður fyrir endurteknu haustkali sem síberíulerkið sleppur við. Því er það gjarnan svo að evrópulerki verður fyrirferðamikið og frjálslega vaxið á meðan síberíulerki verður mun beinvaxnara. Þetta gerir það að verkum að evrópulerki getur orðið ljómandi gott klifurtré en hentar síður til viðarframleiðslu. Miðað við útlitið á lerkinu við Bjarmastíg mætti halda að það hafi ekki orðið fyrir teljandi kali fyrstu árin, þar sem neðsti hluti stofnsins er þráðbeinn. Svo er eins og það breytist í þrífork! Almennt hagar haustkal sér ekki endilega svona, en þessir þrjár megingreinar eru vissulega nokkuð frumlegar. Þetta vaxtarlag getur samt tæplega stafað af haustkali.
Útlitið
Ef haustkal veldur ekki þessum óvenjulega vexti, hvað er það þá? Meðlimir Arfs Akureyrar grófu það upp! Ingibjörg Auðunsdóttir hefur söguna efir Guðmundi, syni þeirra Svavars bankastjóra og Sigrúnar, sem fyrst bjuggu í húsinu. Vetur einn voru börn þeirra hjóna að leika sér á skíðum og renndu sér frá götunni og niður brekkuna. Þá rákust þau óvart á þetta tré sem brotnaði. Lætur nærri að þá hafi tréð verið nærri tveggja áratuga gamalt. Það gafst samt ekki upp og neitaði að drepast. Til minningar um þessa skíðaferð hefur lerkið þetta óvenjulega vaxtarlag.
Upphafið
Úlfur Bragason segir frá því að þegar hann man fyrst eftir sér við Bjarkastíg 7 hafi verið þar allstórt lerkitré sem faðir hans hafi fengið frá Svavari er til stóð að reisa hús bankastjórans við Bjarmastíg. Hefur þá tréð þurft að víkja fyrir nýbyggingunni. Því telur Úlfar að þarna hafi verið trjágarður áður en húsið var reist. Þetta tré við Bjarkastíginn var kallað Svavar til heiðurs gefandanum.
Það gæti sem best verið satt að þarna hafi verið trjáreitur áður en húsið var reist. Áður nefndur Arnór Bliki Hallmundsson er manna fróðastur um sögu húsa á Akureyri. Hann getur sér þess til að Ragnheiður Benediktsdóttir, systir Einars Ben. hafi ef til vill staðið fyrir þessari gróðursetningu. Hún og maður hennar, Júlíus Sigurðsson bankastjóri, byggðu hús við Hafnarstræti 107 árið 1897 og bjuggu þar í 40 ár. Það hús var síðar flutt að Ránargötu og stendur þar enn. Ragnheiður var með þó nokkra ræktun við húsið og stundaði búskap, að sögn Arnórs. Þar var túnblettur sem hún ræktaði þar sem nú eru húsin neðan við Bjarmastíg. Eftir að Júlíus féll frá árið 1936 byggði Ragnheiður húsið við Bjarmastíg 8 og gæti sem best hafa sinnt ræktuninni þarna áfram. Ingibjörg Auðunsdóttir segir að tréð hafi verið gróðursett árið 1938 og hefur það eftir Guðmundi Svavarssyni, syni Svavars bankastjóra. Getur það vel passað við tilgátu Arnórs hér að ofan. Þá hefur Ragnheiður gróðursett þessi tré eftir að hún flutti í húsið við Bjarmastíg 8. Húsið við Bjarmastíg 10 var ekki reist fyrr en 1952.
Ef þetta stenst þá var það íbúi við Bjarmastíg 8 sem gróðursetti lerkið við Bjarmastíg 10.
Niðurstöður
Lerkið við Bjarmastíg 10 var að öllum líkindum plantað árið 1938 þótt húsið hafi ekki verið reist fyrr en 1952. Líklegt er að trénu hafi Ragnheiður Benediktsdóttir gróðursett en hún flutti í húsið við Bjarmastíg 8 tveimur árum áður. Vaxtarlagið fékk tréð þegar börnin í húsinu við Bjarmastíg 10 brutu það óvart er þau léku sér á skíðum í brekkunni.
Er það von okkar að þetta svipmikla tré fái að standa þarna sem lengst enda er það hluti af sögu og menningu bæjarins og setur mikinn og sterkan svip á umhverfi sitt.
Commentaires