Um áramót tíðkast bæði að spá fyrir um viðburði nýs árs og líta yfir farinn veg. Við erum viss um að árið verði gott. Þar með lýkur okkar spádómum. Við viljum þó líta yfir farinn veg en sleppum því í þessum pistli að fjalla um árið sem nú er nýliðið. Þess í stað förum við aftar í tíma.
Árið 1985, eða fyrir réttum fjórum áratugum, birti grasafræðingurinn Ingólfur Davíðsson fróðlega grein í Ársriti Skógræktarfélags Íslands sem bar sama titil og þessi pistill. Nú eru gefin út tvö hefti á hverju ári af þessu riti og því er ekki lengur talað um ársrit, heldur Skógræktarrit. Í því birtist fjöldi fróðlegra greina og hvetjum við allt áhugafólk um skógrækt að gerast áskrifendur.
Við fengum góðfúslegt leyfi Skógræktarfélags Íslands til að endurbirta greinina frá 1985 á þessum vettvangi. Svarthvítu myndirnar í þessum pistli voru í upphaflegu greininni nema annað sé tekið fram. Textinn undir þeim er sá sami og forðum. Við bættum við fáeinum myndum sem tengjast efni greinarinnar. Þar eru í öndvegi myndir úr grein eftir Bergsvein Þórsson og Helga Þórsson sem þeir birtu í Skógræktarritinu árið 2009. Þar segja þeir bræður og félagar í Skógræktarfélagi Eyfirðinga frá sumum af þeim trjám sem Ingólfur segir frá.
Höfundurinn
Ingólfur Davíðsson grasafræðingur fæddist á Ytri-Reistará við Eyjafjörð í janúar 1903 og lést 95 ára að aldri í október 1998. Ingólfur lauk magistersprófi í grasafræði frá Kaupmannahafnarháskóla sumarið 1936.
Hann var afkastamikill fræðari og hafði mikinn áhuga þjóðlegum fróðleik, jafnt sem náttúrufræði. Þessi tvö áhugamál tvinnast saman í meðfylgjandi grein. Hann skrifaði mikinn fjölda greina um grasafræði og plöntusjúkdóma í blöð og tímarit. Einnig skrifaði hann kennsluefni. Í samstarfi við Ingólf Óskarsson skrifaði hann tvær bækur sem margir þekkja. Það eru Stofublómabókin árið 1957 og Garðagróður sem var fyrst gefin út þrisvar sinnum en fyrst árið 1951. Sú bók var algert grundvallarrit á seinni hluta síðustu aldar. Að auki þýddi hann og staðfærði nokkrar bækur um grasafræði og er þá aðeins fátt eitt nefnt. Árið 1981 veitti Raunvísindadeild Háskóla Íslands honum heiðursdoktorsnafnbót fyrir rannsóknir sínar.
Trjárækt nyrðra á 19. öld
Lítum í anda til Eyjafjarðar um aldamótin 1800. Þá sást varla hrísla við nokkurn sveitabæ, en líklega ein og ein er við örfá hús danskra kaupmanna á Akureyri. Nú er Akureyri mikill garðabær. „Laufhvelfingar lokast þar langt yfir höfði víðast hvar“. Íslensk tré verða sjaldan meir en 8-12 m á hæð og 60-100 ára gömul.
Rekjum dálítið sögu elstu núverandi trjágarða á Íslandi, en þeir eru á Norðurlandi. Á árunum 1820-1830 gróðursettu þeir Þorlákur Hallgrímsson í Skriðu í Hörgárdal og synir hans Björn og Jón allmörg tré í Skriðu og Fornhaga. Döfnuðu sum þeirra vel og þótti mjög merkilegt á þeim tíma. Ganga ýmsar sögur um hina miklu alúð sem Þorlákur sýndi trjáræktinni. Vinnukonur í Skriðu vildu hengja þvott til þerris á hríslunum, en Þorlákur harðbannaði það og tók sjálfur þvottinn niður, ef þær hlýddu ekki strax. Hann kvaðst heldur vilja missa kú úr fjósinu en hríslu úr garðinum.
Hér að ofan má sjá þrjár myndir sem settar voru saman fyrir grein þeirra Bergsveins og Helga árið 2009. Þær eru allar teknar frá nánast sama sjónarhorni. Elstu myndina tók Bruno Schweizer árið 1935. Miðmyndina tók Sigurður Blöndal árið 1980 en þá síðustu tók Helgi Þórsson árið 2009. Á henni er Bergsveinn sem ljómandi gott viðmið.
Á myndunum má sjá nokkur þeirra trjáa sem eru á myndinni hér að ofan. Tré 1 hefur misst stóra grein einhvern tímann á árabilinu 1980-2009 og samkvæmt yngstu myndinni, má sjá að margar nýjar greinar hafa vaxið út úr stofninum. Tré 2 hefur misst þriðja stofninn fyrir árið 1980 og hinir stofnarnir eru farnir að hallast nokkuð mikið. Tré 3 má þekkja næsta auðveldlega á öllum myndunum. Tré sem merkt eru með bókstöfum á myndinni frá 1935 eru öll fallin en stubbar flestra þeirra er hægt að finna á staðnum. Tölusettu trén standa enn.
Af þessum myndum má sjá að það standa enn fjögur tré af þeim sem Þorlákur Hallgrímsson gróðursetti forðum með sonum sínum.
Jónas Hallgrímsson skáld, frændi Þorláks, kom að Skriðu 10. júlí 1839 og sagði frá trjánum o.fl. í dagbókum sínum. Jónas segir svo frá (þýtt úr dönsku):
„Á þessum fagra bæ býr Þorlákur Hallgrímsson dannebrogsmaður, alkunnur fyrir velheppnaðar tilraunir til eflingar garðyrkjunni. Hann er nú gamall maður, 85 ára, en mjög fjörugur og kvikur. Hann sýndi mér garða sína fullur áhuga. Einkum var hann ánægður með reynitré sín, enda eru þau mjög vöxtuleg. Þau eru öll sprottin af hinni frægu Möðrufellshríslu, sem er ævagömul, stór, villt hrísla. Af henni ganga þjóðsögur.“ (Þessi hrísla óx í Möðrufellshrauni og var helgi á henni fyrr á tíð. Ljós áttu að loga á greinum hennar á jólanóttina. Um hana og systkini tvö er kveðið: „Í Eyjafirði aldinn stendur reynir“. Sprotar af hríslunni lifa enn í urðinni upp af bænum Möðrufelli. Ing. Dav.)
Enn vex reynir upp úr grjóturðinni í Möðrufellshrauni. Myndir: Bergsveinn Þórsson.
Jónas heldur áfram: „Rétt er að geta þess, að reynir þrífst mjög vel, þar sem reynt hefur verið að rækta hann á Íslandi, en hingað til hefur aðeins verið reynt að rækta einstaka tré. Hryggur í huga sýndi Þorlákur mér aftur á móti nokkrar vesælar greniplöntur, kræklur sem auðsjáanlega eiga ekki hér heima. Þorlákur hafði líka gróðursett dálítil bjarkar-trjágöng. Virtust bjarkirnar í góðum vexti, en eru allar mjög kræklóttar og verða aldrei bolfagrar. Allar bjarkirnar eru teknar úr niðurníddum, deyjandi kjarrskógi. (Líklega Miðhálsaskógi, en þar er nú girt land og hafin talsverð trjárækt). Munu trén, sem Þorlákur flutti þaðan í garð sinn, naumast annað en sprotar vaxnir upp af gömlum stubbum. Yrði eflaust miklu betra að sá birkifræi, helst innlendu, eða þá frá norðurhéruðum Noregs, ef menn vilja reyna að rækta birkiskóg á Íslandi.
Ég sá líka íslensk jarðarber í hinum fallega garði Þorláks. Þau hafa verið flutt þangað úr Miðhálsaskógi. Þar eru nú aðeins kjarrleifar eftir í austurbrekku Bakkahálsins nyrst, þar sem Hörgárdalur og Öxnadalur koma saman. Það er unun að sjá með hve mikilli natni, reglusemi og varúð þessi gamli ágætismaður annast garða sína. Hann hefur gefið öðrum gott fordæmi, og með tilraunum sínum sannað að hægt er að stunda garðyrkju á Íslandi með góðum árangri. Garðræktin getur orðið til þæginda, hagnýtra nota og fegurðarauka fyrir heimilin, og hefur góð áhrif á bændurna, bæði líkamlega og andlega. Þorlákur talaði, þó gamall væri, með miklum áhuga um þá fyrirætlun sína að breyta rúmlega fjögur-þúsund ferálna bletti (sem verið hafði kartöflugarður) í skóglendi handa komandi kynslóðum. Seinna mundi reynslan kenna mönnum að rækta skóg með betri árangri og aðferðum, en hann hefði verið fær um. Það er gott að mæta slíkum manni, sem vinnur hress í huga og trúir á betri tíma,“ segir Jónas að lokum.
Stefán Stefánsson, grasafræðingur og kennari, mældi trén í Skriðu og Fornhaga 29. júlí 1888. Sjá Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands árið 1909. Mælingar og umsögn Stefáns eru felldar inn í ritgerð Sigurðar Sigurðssonar skólastjóra „Tilraunir með trjárækt á Norðurlandi“. Stefán segir svo frá:
„Reynitrén í Fornhaga voru þá 6 að tölu. Vaxa þar á túnbala framundan bænum og mjög áveðurs; hafa þau öll lifað til skamms tíma. Þegar ég mældi þau, voru þau 10-16 feta há. Tvö hæstu trén sem ég mældi nákvæmlega voru 16 feta há. Annað hafði 4 boli, og voru þeir að ummáli neðst 12, 18½ og 21 þumlungar. Sá gildasti var 2 fet frá jörðu 19 þumlungar að ummáli, og 4½ fet frá jörð 17 þumlungar. Hitt tréð var með þremur bolum og líkt að bolhæð og gildleika. - Sama dag mældi ég trén í Skriðu. Stærsta birkitréð var þá 20 feta hátt og 27 þumlungar að ummáli, 1 fet frá jörðu, og liðug 3 fet frá stofni var bolurinn 21 þumlungar að ummáli. Þetta tré er nú dautt, enda mun það hafa verið elsta tréð og líklega fyrsta birkitréð sem gróðursett hefur verið hér á landi. - Tveir stærstu reyniviðirnir voru þá um 20 fet. Sá stærsti þeirra lifir enn (1909) og er mikið tré og frítt. Hann er með þremur bolum og voru þeir 18, 27 og 30 þumlungar að ummáli neðst. Gildasti bolurinn var 3½ fet frá stofni 30 þumlungar að ummáli og skiptist rétt þar fyrir ofan. Öll þessi tré eru gróðursett af þeim feðgum Þorláki Hallgrímssyni í Skriðu, Jóni Kjærnested og Birni bónda í Fornhaga, sonum Þorláks. Björn var hinn mesti garðyrkjumaður, og eftir að þeirra missti við, hefur lítið verið hirt um tré þessi,“ ritar Stefán.
Reynirinn í gilinu ofan við Fornhaga árið 2009. Þarna vex hann með eini og myndar fjölmarga stofna. Myndir: Bergsveinn Þórsson.
Haustið 1949 mældi Ingólfur Guðmundsson, kennari og bóndi í Fornhaga, trén, að tilmælum mínum og ritar á þessa leið í bréfi: „Í Fornhaga lifðu 6 reynitré árið 1888, en tvö féllu á árunum 1940-1945 og eitt nokkru áður. Hin þrjú, sem eftir lifðu, mældust 7.45 og 7.60 m á hæð. - Í Skriðu lifðu 11 gömul reynitré og 3 birki. Voru hæstu reynitrén 10.46, 10.50 og 10.65 m á hæð, en hin voru 1 m lægri, öll mjög gildvaxin. Ummál stofna var 170 cm, 110 cm og 107 cm og þeirra lægstu 100 cm. Hæsta björkin var 7 m, ummál stofns 90 cm. Margir sprotar vaxa upp kringum gömlu, gildu stofnana. Hafa margar reyniplöntur verið aldar upp, bæði af þeim og fræi, og munu komnar víða um land. Árið 1888 voru hæstu trén í Skriðu um 7 m á hæð, bæði björk og reynir. Hafa reyniviðirnir vaxið talsvert síðan og enn þrauka þeir sumir. Enn prýða gömlu lundarnir stórum. Það hefur lengi verið hlýlegra að líta heim til Skriðu og Fornhaga en berangursbæjanna. En nú vaxa lundar upp á fleiri stöðum við bæi og sérstakir stórir reitir. Reiturinn í Skriðu er girtur og friðaður nú.“ Í Fornhaga, er húsfreyjan, Herdís Pálsdóttir, mikil ræktunarkona. Hefur lengi rekið þar gróðrarstöð og hafa fjölmargir fengið þaðan hríslur og blóm. 16 ung reynitré voru gróðursett í Fornhaga árið 1943. Þau hæstu voru um 3 m 1949. Sjö birki hafa verið gróðursett síðan 1939, hið hæsta um 4 m 1949. Ennfremur margar smáhríslur teknar úr Fornhagagili. Stefán getur um reynihríslu í gilinu 1909. Hefurðu séð hríslurnar í Skriðu og Fornhaga? var oft sagt á mínum uppvaxtarárum. Í ritgerðinni, sem fyrr var vitnað til, í Ársriti Ræktunarfélags Norðurlands 1909, ritar Sigurður Sigurðsson skólastjóri m. a.:
„Hér skal bent á nokkur fyrstu trén, sem gróðursett hafa verið á Norðurlandi, að því er nú er kunnugt. 1. Hið elsta tré sem nú er með lífskrafti er tréð framan við hús Guðmannsverslunar á Akureyri. Eftir því sem dr. F. C. Schübeler segir í bók sinni Norges Vækstrige bls. 474, er það gróðursett á árunum 1817-1820. Hann segir að það hafi verið mælt 1882 og hafi þá verið 21 fet, eða 6.58 m á hæð. Nú er hæð trésins nær hin sama. Því ekki hækkað síðan 1882 (enda hart í ári fyrir aldamót). Annað tré hefur verið gróðursett um sama leyti á Akureyri. En það eyðilagðist af eldi 1901. 2. Trén í Skriðu munu vera gróðursett um 1820-1830. Það eru 10 reynitré og 3 eða 4 birkitré (Flensborg). Bæði birkin og reynitrén eru með miklum lífsþrótti enn.
Á Lóni í Hörgárdal var einnig reynitré. Er það að líkindum gróðursett um sömu mundir og trén í Skriðu. (Hinn mikli framkvæmdamaður Þorsteinn Daníelsson bjó þá á Lóni og kona hans Margrét dóttir Þorláks í Skriðu. Reynihríslan á Lóni var stór og heyrði ég á bernskuárum mínum talað um að rætur trésins kynnu að lyfta timburhúsinu svo það hallaðist!) 3. Næst í röðinni eru tvö reynitré, sem standa hjá húsi timburmeistara Sigtryggs Jónssonar á Akureyri. Þau voru gróðursett um 1840, sbr. Norges Vækstrige II. bindi bls. 774-775. Eftir mælingu, sem gerð var 1882, var annað þetta tré 16 fet, eða 5 m á hæð. Nú er það 7.05 m á hæð og 0.88 m að ummáli við rót. Þetta tré er enn með góðum lífsþrótti (1909). 4. Þá má nefna reynitré sem vex í kirkjugarðinum á Hólum í Hjaltadal. Það var gróðursett 1882 og flutt þangað frá Skriðu í Hörgárdal af Hermanni Jónassyni, sem síðar varð skólastjóri, en þá var nemandi í Hólaskóla. Fyrst framan af átti þetta tré að stríða við kalt tíðarfar. Þroskaðist það því seint og hefur vaxið best síðustu 10 árin. Nú er það að hæð 3.60 m. (Geta má þess, að Árni G. Eylands gróðursetti allmarga gulvíðigræðlinga ofan úr hlíð í raka lægð á Hólum. Vex þar nú vænn lundur. Árni var nemandi í Hólaskóla þá eins og Hermann fyrr.) - Reyniviðurinn á Möðruvöllum í Hörgárdal brann með Friðriks-gáfu 1874 og var þá allmikið tré. 5. Árið 1890 gróðursetti Oddur lyfsali Thorarensen á Akureyri reynitré hjá sér. Það var flutt frá Skriðu. Nú er það 4 m á hæð með 6 stofngreinum. Á Akureyri hafa enn verið gróðursett nokkur tré á árunum 1890-1900. Flest þeirra hafa náð góðum þroska.“
Stefán Stefánsson segir ennfremur í fyrrnefndri grein: „Hér má geta eplatrés, sem gróðursett var á Akureyri við hús Höepnersverslunar 1884 af verslunarstjóra Edwald Möller. Það er nú orðið um 12 fet á hæð. Síðasta sumar (1909) blómgaðist það í fyrsta sinn, þá 25 ára og komu á það 5 epli, en ekki náðu þau fullum þroska. Árið 1882 gróðursetti Möller heitinn á sama stað hlynplöntur frá Danmörku. Önnur dó eftir nokkur ár, en náði þó allmiklum þroska. Hin lifði þangað til 1905 og var þá orðin að nær 13 feta háu, prýðisfögru tré, en aldrei mun sá hlynur hafa blómgast. Mun það vera eini hlynurinn sem náð hefur nokkrum vexti hér á landi.“ Þetta var árið 1909. Nú vaxa mörg hlyntré í Reykjavík og víðar allt að 11 m há. Á Akureyri var hæsti hlynurinn tæpir 8 m á hæð haustið 1965. - Í formála Íslenskrar garðyrkjubókar eftir norska grasafræðinginn Schubeler 1883 ritar þýðandinn, Moritz Halldórsson Friðriksson læknir, eftir að hafa minnst á reynihríslu í Reykjavík: „En stærstu trén vaxa á Akureyri, eru þrjú þeirra stærst. Eitt stendur fyrir framan hús Hafsteins kaupmanns og er þeirra elst, mun vera um 100 ára, -- hæð 11½ alin, þvermál toppsins er 13 álnir. Hin trén eru að hæð 11 álnir og 8½ alin. Öll bera trén í venjulegum árum fullþroskuð ber.“
Jón konferensráð Eiríksson ritar í formálanum fyrir Ferðabók Ólavíusar, að árið 1797 hafi vaxið 2 perutré á Akureyri, og hafi annað þeirra borið fullþroskaðan ávöxt. Líklega hefur Lynge kaupmaður ræktað þessi perutré, sá hinn sami og ræktaði stóran kartöflugarð í gilbrekkunni inni í Fjöru á Akureyri og Baldvin Einarsson lýsir með hrifningu. Kannski hefur það verið Lynge, eða einhver honum nákominn, sem gróðursetti reynivið árið 1797 sunnan við lítið hús, síðar nefnt Laxdalshús, inni í Fjörunni á Akureyri. Það stóð í blóma fram á þessa öld, en stofn þess féll vegna elli og fúa fyrir allmörgum árum, líklega skömmu eftir 1930. En upp vaxa mörg og mikil rótarskot til endurnýjunar. Var áformað að friða þau og ná síðan af þeim öngum og fræjum. En rótarskotin voru upprætt af misgáningi fyrir fáum árum. Árið 1883 segir Moritz Halldórsson þrjú reynitré stærst á Akureyri. Á skólaárum mínum á Akureyri 1925-1929 voru 2-3 reynitré enn langstærst, miklu bolgildari en önnur. Þau stóðu öll í gamla bæjarhlutanum inni í Fjöru og kannaðist hver maður við þau. Gömlu tré voru þau kölluð, og oft sýnd gestum. Líklega eru þetta sömu trén og Moritz Halldórsson ritar um í garðyrkjubókinni: Þau voru orðin hrörleg 1925, en hvílíkir stofnar! Tvö féllu á árunum 1930-1940. Tréð við Laxdalshúsið lifði lengst, gróðursett 1797, og mundu rótarsprotar þess lifa enn, ef þeir hefðu fengið að vaxa í friði, þeir voru að verða álíka háir og húsið. [Hér má sjá umfjöllun okkar um Laxdalshús og reyninn við það frá árinu 2001].
Reynitrén í Laufási við Eyjafjörð
„Laufás minn en listabær. lukkumaður sá honum nær. Manni allt á móti hlær, mest á vorin þegar grær.“ Svo kvað séra Björn Halldórsson. Laufás blasir við sólu. Trén standa við stafn kirkjunnar og voru gróskumikil árið 1909. Séra Þorvarður Þormar í Laufási segir í bréfi árið 1950:
„Trén eru tvö og standa á leiðum séra Gunnars Hallgrímssonar og séra Gunnars Gunnarssonar, þ.e. afa og föður Tryggva Gunnarssonar. Ég mældi tréð á leiði G. Gunnarssonar í vetur. Það greindist í 2 greinar, álíka stórar. En af sama stofni er brotin stærsta greinin fyrir um 12 árum. Hæð trésins er 9.40 m, ummál áður en stofninn greinist 130 cm, en 1 m eftir greiningu, 1 m frá jörð. Hin greinin er öllu grennri. Þetta tré mun vera gróðursett 1853 eða 1854. Syðra tréð, á leiði G. Hallgrímssonar, var gróðursett af Tryggva Gunnarssyni árið 1849. Þar standa nú eftir 2 greinar, álíka stórar og sú sem ég mældi. Aðal stofninn féll í ofsakrapaveðri að kvöldi 30. janúar 1947. Mældist hann yfir 11 m, og er nú til rannsóknar hjá Skógrækt ríkisins.“ Árhringar í þessum reyniviðarbol reyndust 98-99. Trén eru nú á fallandi fæti, sprungin, fúin og tekin að hallast. En e.t.v. endurnýjast rótarsprotar.
Engir 19. aldar barrviðir munu til hér á landi. Bæði Schierbeck landlækni og Einari Helgasyni garðyrkjumanni gekk ræktun þeirra erfiðlega. Tilrauna Þorláks í Skriðu með greni er áður getið. „Skriðu Þorláks skrýða tré, skarta enn þó gömul sé“, en það eru reyniviðir. Gamla trjáræktarstöðin á Akureyri (1899) og Ræktunarfélag Norðurlands (1903) ollu tímamótum. Verður það ekki rakið hér, en þess aðeins getið, að nú tók ræktun barrtrjáa að heppnast, einkum lerkis og rauðgrenis. Eru mörg þeirra nú vænir viðir 10-12 m háir, eða vel það. Síðar olli sitkagrenið þáttaskilum syðra. Stafafura virðist og álitleg. Ég man vel hrifningu mína af trjáræktarstöðinni sunnan við gömlu kirkjuna, þar sem nú er Minjasafnsgarður. Einkum varð mér ungum starsýnt á gráreynihríslurnar og fannst mér þær ærið mikilfenglegar. Væn, gömul gráreynihrísla stendur við gafl hússins Aðalstræti 50. Þar bjó séra Matthías Jochumsson fyrstu 17 ár sín á Akureyri, og orti mörg af bestu ljóðum sínum. Matthías flutti til Akureyrar árið 1887 og gæti vel hafa gróðursett hrísluna. Fjaran, gamli bæjarhlutinn á Akureyri, var lengi eini trjáprýddi kaupstaðurinn á Norðurlandi. Vel gæti Jónas Hallgrímsson hafa hugsað til trjáræktarinnar í Skriðu og Fornhaga, þegar hann orti ljóð línurnar: „Fagur er dalur og fyllist skógi og frjálsir menn þegar aldir renna.“
Lítum á myndirnar. Myndina af gömlu trjánum í Skriðu tók Vigfús Sigurgeirsson árið 1938. Mynd af Magnúsi bónda við reyniviðarstofninn árið 1961 mun ljósmyndari Dags hafa tekið. Myndin af margstofna reyniviðnum við timburhúsið í Fjörunni á Akureyri er einkennandi fyrir þann bæjarhluta. Myndin mun vera allgömul. Gráreynir kemur til sögunnar á Akureyri um aldamótin, þeir helstu munu nú vera 10-11 m á hæð, en eiga eftir að hækka, eins og grenið og lerkið. Í trjárækt verður að hugsa í áratugum og öldum.
Í bókinni Íslandsferð eftir C.W. Shepherd, sem ferðaðist hér 1862, segir svo á bls. 101 í þýðingu Steindórs Steindórssonar: „Kaupstaðurinn (þ.e. Akureyri) er ein löng, óregluleg húsaröð, sem snýr framhliðinni að sjónum, en breið gata liggur milli húsanna og sjávar. En að húsabaki rís næstum því lóðrétt brekka. Sérhver ferðamaður hlýtur að dást að trjánum á Akureyri. Þau eru að vísu aðeins tvö talsins, en það eru regluleg tré með gildum stofni og greinum og um 25 fet á hæð. Þetta eru reyniviðir og standa sinn við hvort hús norðarlega í bænum.“ Kjarni bæjarins var þá sunnar en nú, þ.e. inni í „Fjöru“ og grennd.
Sýnd er mynd af reyni við framan við hús á Akureyri. Myndin mun vera tekin á árunum 1870-1880 að líkindum. Húsið er gamla amtmannshúsið, áður kallað sýslumannshúsið í Fjörunni á Akureyri. Það brann 1901. Reyniviðurinn gamli var einn af þremur stórum reynitrjám á Akureyri á þeim tíma.
Í Ferðabók Eggerts og Bjarna er talið að tré hafi verið ræktuð á Möðruvöllum í Eyjafirði fyrir miðja 18. öld. Tegund ekki nefnd, en sennilega hefur verið um reynivið að ræða.
Þakkir
Svo mörg voru þau orð. Við færum Ragnhildi Freysteinsdóttur hjá Skógræktarfélagi Íslands okkar bestu þakkir fyrir að senda okkur skannaðar myndirnar úr grein Ingólfs og veita okkur leyfi til að birta hana. Við þökkum einnig þeim Arnóri Blika Hallmundssyni, Helga Þórssyni og Bergsveini Þórssyni fyrir lán á myndum. Gleðilegt, gróskumikið ár.
Heimildir:
Bergsveinn Þórsson og Helgi Þórsson (2009): Elstu tré Íslands. Í Skógræktarritið 2009 2. tbl. bls. 58-63. Skógræktarfélags Ísland, Reykjavík.
Ingólfur Davíðsson (1985): Trjárækt nyrðra á 19. Öld. Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1985 bls. 22-26. Skógræktarfélag Ísland, Reykjavík.
Comments