Nokkur grunnhugtök um vatn í jarðvegsauðlindinni
- Sigurður Arnarson
- Apr 2
- 16 min read
Þvert á það sem margur virðist halda er ferskvatn takmörkuð auðlind. Stærsti hluti vatns í heiminum er saltvatn í höfum jarðar. Lætur nærri að 97% vatns sé saltur sjór. Hreint vatn er ekki nema lítill hluti af þessum þremur prósentum sem eftir eru. Það eru fáar þjóðir sem hafa jafn mikið af því og við Íslendingar. Sumt af því er meira að segja frosið í miklum vatnstönkum sem við köllum jökla. Ferskvatnsbirgðir heimsins eru reyndar að mestu geymdar í jöklum en því miður minnkar sú auðlind hratt á okkar tímum. Vatn í ám og vötnum er innan við 1% af vatni heimsins og aðeins hluti af því er hreint og ómengað. Í þessum pistli veltum við þessum dýrmæta og mikilvæga vökva fyrir okkur. Hann er öllu vistkerfinu ákaflega mikilvægur og þá ekki bara vegna þess að án vatns væri ekki hægt að hella upp á kaffi. Við förum í pistlinum yfir nokkur hugtök sem gott er að kunna skil á þegar rætt er um vatn í skógarvistkerfum heimsins og reyndar í öllum öðrum vistkerfum, ef út í það er farið.

Hið merkilega vatn
Vatn er ákaflega merkilegt efnasamband. Skýringin á virkni vistkerfa tengist gjarnan eiginleikum vatns og aðgengi gróðurs að því. Því er ágætt að hefja frekari umfjöllun á að skoða þetta efnasamband aðeins betur og við styðjumst við bókina Mold ert þú eftir Ólaf Gest Arnalds frá árinu 2023. Auðvitað má finna þessar upplýsingar í fjölmörgum öðrum ritum.
Sameind vatns er sett saman úr tveimur vetnisfrumeindum (H) og einni súrefnisfrumeind (O). Þetta skrifa efnafræðingar sem H20. Tölustafurinn segir til um fjölda vetnissameinda og á að vera hálfur í næstu línu fyrir neðan bókstafina, en því miður býður forritið, sem þessi grein er vistuð á, ekki upp á þann möguleika.
Súrefnisfrumeindirnar hafa neikvæða hleðslu (O--) en vetnið hefur jákvæða hleðslu (H+). Í hverri vatnssameind raðast frumeindirnar (atómin) þannig saman að mínusarnir dragast að plúsunum. Sameindin er jafnframt skautuð, sem kallað er. Hún hefur bæði jákvæð og neikvæð skaut utan á sér. Það leiðir til þess að vatnssameindirnar dragast saman þótt þær séu í vökvaformi. Því er sagt að vatn hafi mikla samloðun. Þetta er forsenda hárpípukraftsins sem við sögðum frá í þessum pistli og margra annarra eiginleika þessa merka efnis.

Það er þessi skautun vatnssameinda sem veldur því að vatn er í vökvaformi við þær aðstæður sem ríkja á yfirborði jarðar. Það er ákaflega mikilvægt því annars væri allt vatn lofttegund við eðlilegan hita á jörðinni. Má segja að skautunin „festi“ vatnið saman. Skautun vatns skiptir líka miklu máli vegna þess að hún veldur því að vatn er góður leysir. Þess vegna getur vatn haldið utan um mikinn styrk jóna í lausn. Þessi eiginleiki er undirstaða efnahvarfa í vatni og leiðir til þess að uppleyst efni geta orðið aðgengileg ýmsum gróðri. Plönturnar geta því tekið upp næringarefni sem eru uppleyst í vatni.

Hugtök
Nokkur hugtök eru mjög mikilvæg þegar rætt er um vatnshringrásir skóganna og vatnsbúskap margvíslegra plantna. Í þessum pistli, sem nefndur er hér að framan, má lesa um hugtök eins og hárpípukraft, yfirborðsspennu, samloðun, viðloðun, afgufun og uppgufun. Allt tengist þetta eiginleikum vatns og bendum við áhugasömum á fyrrnefndan pistil til frekari fróðleiks.

Í þessum kafla verður nokkrum hugtökum bætt við. Þau eru öll mikilvæg þegar rætt er um hversu mikið vatn er í mold og hversu aðgengilegt það er trjám og öðrum gróðri. Skilningur á svona hugtökum getur hjálpað til við alla ræktun og nýtingu lands.
Við höfum áður nefnt sumt af þessu en við höfum fengið beiðni um að útskýra hugtökin ögn betur. Okkur er ljúft og skylt að verða við því. Þetta eru hugtökin vatnsinnihald, mettun, visnunarmark og vatnsheldni. Að auki skiptir flæði vatns og ísig miklu máli. Í köflunum hér á eftir er fyrst og fremst stuðst við bækurnar Mold ert þú (Ólafur 2023), Jarðvegur - Myndun, vist og nýting (Þorsteinn 2018) og Elements of Ecology (Smith & Smith 2015).

Vatnsinnihald (e. water content in soil)
Hugtakið nær yfir það hversu mikið vatn er í jarðvegi á hverjum tíma. Oftast er það táknað sem hlutfall af þurrvigt jarðvegs. Til að flækja málið aðeins verður að geta þess að mismunandi jarðvegur heldur misjafnlega fast í vatnið. Því dugar vatnsinnihald ekki eitt og sér til að segja til um hversu mikið vatn er aðgengilegt fyrir gróður. Þetta sést vel á skemamynd hér aðeins neðar sem er úr bókinni Elements of Ecology.
Dauð lúpína á Hólasandi. Hún hefur gert sitt gagn. Laufin hafa rotnað og auðgað sandinn af kolefni. Lengri tíma tekur fyrir stönglana að rotna. Að auki hafa gerlar á rótum lúpínunnar bundið nitur sem annar gróður getur nýtt sér. Það flýtir fyrir framvindunni. Hið lífræna efni gerir það að verkum að sandurinn heldur betur í vatn en hann getur gert án lúpínunnar. Nefna má að lúpína hefur stólparót. Sumir telja að vatn geti hripað niður með svona stólparótum og nýtist þá verr en þar sem trefjarætur eru meira áberandi. Það vatnstap vegur þó varla upp þann gróða sem fæst með auknum, lífrænum efnum í moldinni. Á seinni myndinni sést að ung lúpína hefur tekið við. Hún mun halda áfram að bæta landið. Myndir: Sig.A.


Vatnsmettun (e. saturation eða field capacity)
Hugtakið nær yfir vatnsinnihald moldar þegar laust vatn hefur lekið úr henni. Þá er eftir jarðvegur sem mettaður er af bundnu vatni. Vatnsinnihald við vatnsmettun getur verið ákaflega breytilegt eftir jarðvegsgerðum og því er erfitt að skilgreina viðmið fyrir mettunina. Mörkin við vatnsmettun mætti einnig kalla sigmörk (field capacity). Það gerir Þorsteinn Guðmundsson (2018) í sinni bók.

Visnunarmörk (e. wilting point)
Við visnunarmark er jarðvegur orðinn það þurr að gróður getur ekki tekið vatnið upp og nýtt það. Því tekur gróðurinn að visna. Breytilegt er eftir tegundum plantna og jarðvegsgerð hvenær þessu marki er náð. Í sumum tilfellum getur verið töluvert vatn í jarðvegi þegar visnunarmarki er náð.
Það má heita merkilegt að sumar plöntur virðast bregðast mjög svipað við miklum þurrki og mikilli bleytu. Nánar um það aðeins neðar.

Vatnsheldni (e. water holding capacity eða plant available water )
Þetta er það vatn sem jarðvegur getur miðlað til gróðurs. Vatnsheldnin er mismunurinn á vatnsmagni og vatnsmettun annars vegar en hins vegar á visnunarmarki. Vatnsheldni er ákaflega mikilvægur mælikvarði á frjósemi jarðvegsins og segir mikið til um það hvers konar vistkerfi þróast. Breytingar á vatnsheldni breyta heilu vistkerfunum. Ef við gefum okkur að vatnsinnihald við mettun sé 80% en visnunarmark 20% þá er aðgengilegt vatnsmagn fyrir gróður 60%. Vatnsheldnin er þá sú sama eða 60%.

Safaspenna (Turgor þrýstingur)m nb<
Þegar vatn fer inn í frumur plantna myndar það þrýsting. Ef við viljum slá um okkur með fræðihugtökum er ágætt að vita að þessi vatnsþrýstingur í plöntufrumum kallast turgor þrýstingur á flestum nágrannatungumálum okkar. Um safaspennu höfum við fjallað áður, en þar sem hún tengist ofangreindum hugtökum þykir okkur rétt að nefna hana aftur.

Lífeðlisfræðileg ferli inni í frumum vaxa í réttu hlutfalli við safaspennu. Eftir því sem spennan er meiri, þeim mun meiri virkni og þar með meiri ljóstillífun og vöxtur. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir plöntur að endurnýja það vatn sem tapast með uppgufun úr laufum. Það má orða svona: Það þarf að viðhalda safaspennunni. Eftir því sem vatnsheldnin (sjá ofar) er meiri, þeim mun auðveldara er fyrir gróðurinn að endurnýja vatnið sem gufar upp við ljóstillífun.

Áhrifavaldar
Þeir þættir sem ráða mestu um hve mikið vatn jarðvegurinn getur haldið í (vatnsheldni) eru kornastærð jarðvegs og magn lífrænna efna. Eftir því sem meira er af mjög smáum ögnum í jarðveginum þeim mun stærra er yfirborðsflatarmál korna í moldinni sem vatn getur bundist við. Þessi smáu efni eru fyrst og fremst leir og lífræn efni. Þess vegna getur vatnsinnihald leirríkra og lífrænna jarðvegsflokka verið mjög mikið. Ef þessi efni vantar getur gróður þjáðst af þurrki.

Sandur og möl hafa ákaflega litla vatnsheldni eins og vænta má enda er yfirborðsflatarmálið lítið og innihald lífrænna efna takmarkað. Það er þess vegna sem grófur sandur og möl er notað sem frostfrítt efni. Vatnið hripar úr efninu svo engin frostlyfting á sér stað þegar frýs. Þetta er þó aðeins ágrip af þessum fræðum og ekki vinnst tími til að útskýra þetta allt. Má sem dæmi nefna að inn í þessar jöfnur vantar upplýsingar um hita. Vatnsþörf plantna eykst með auknum hita.

Holrými
Uppbygging jarðvegs getur verið býsna mismunandi enda eru jarðvegskornin af ýmsum stærðum og gerðum. Þau hafa áhrif á þá þætti sem ráða vatnsheldni jarðvegs. Mismunandi stærð jarðvegskorna skapar misjafnlega stór holrými í jarðvegi. Þorsteinn Guðmundsson (2018) fjallar nokkuð um þau í sinni bók frá bls. 96 og áfram. Holrými í jarðvegi geta verið mjög fjölbreytt að stærð og gerð en flest eru það lítil að við sjáum þau ekki með berum augum. Þau eru oft samtengd á einn eða annan hátt og hafa áhrif á eðliseiginleika jarðvegsins. Þessi holrými eru fyllt af vatni og lofti í mismunandi hlutföllum. Stærð þeirra og gerð hefur áhrif á flæði vatns og lofts um jarðveginn. Á mörkum vatns og yfirborðs agna fara fram lífræn og ólífræn efnahvörf sem hafa áhrif á frjósemi jarðvegsins. Gott er líka að minnast þess að rotnun í jarðvegi er háð því að súrefni komist að efnahvörfunum. Ef öll holrými moldarinnar fyllast af vatni dregur mjög úr rotnun. Þetta er vel þekkt úr mýrlendi. Annars bendum við á bók Þorsteins (2018) til frekari fróðleiks.

Rakastress. Skortur og ofgnótt
Of mikið af vatni getur stressað plöntur, rétt eins og skortur á vatni. Plöntur þurfa hæfilegt magn af vatni og ör loftskipti við umhverfið til að stunda sína ljóstillífun. Sumt af þessum loftskiptum fer fram í jarðvegi. Ef skortur er á vatni hægir á ferlinu. Ef loftrými milli jarðvegskorna fyllist af vatni dregur úr loftskiptum og rætur geta drukknað. Því geta einkenni ofgnóttar vatns verið svipuð fyrir sumar plöntur og einkenni vatnsskorts (Smith & Smith 2015, 6. kafli).
Sumar plöntur geta gert sér að góðu svæði þar sem vatn er ýmist of mikið eða of lítið. Sennilega stafar þetta af því sem hér að ofan er haft eftir Smith og Smith. Þessar plöntur geta gert sér að góðu allskonar vist sem hentar ekki meginþorra plantna. Þær hafa þróað með sér leið til að bregðast við annað hvort vatnsskorti eða ofgnótt vatns en eiginleikinn getur hentað í báðum tilvikum. Má nefna loðvíði sem dæmi. Í erlendum flórubókum er talað um að loðvíðir vaxi mest á blautum stöðum. Má sem dæmi nefna að í Noregi er sagt að tegundina sé fyrst og fremst að finna í bleytu til fjalla. Hér á landi vex loðvíðir ágætlega í nokkuð blautum mýrum en hann þolir einnig mikinn þurrk (Jón Kr. 2024). Þannig myndar hann sjaldan miklar breiður nema í mjög sendnum jarðvegi. Eins og að framan greinir getur sendinn jarðvegur þornað hratt, en það virðist loðvíðirinn þola mætavel. Svo rotna lauf loðvíðis mjög hratt og auðga sandinn af lífrænum efnum. Sveppafræðingurinn Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir benti okkur á að laufin á honum rotna hraðar en lauf hinna þriggja íslensku víðitegundanna. Laufin verða að svartri „beinagrind “ þar sem einungis æðar verða eftir.

Af jurtkenndum gróðri má nefna burnirót. Algengust er hún þar sem sauðfé nær ekki í hana, svo sem í klettahömrum (það er reyndar sami vaxtarstaður og Föroysk Flora (2000) gefur upp fyrir loðvíði). Á Hornströndum er engin sauðfjárbeit og þar hefur hún þrennskonar kjörlendi. Stundum vex hún í mjög þurru landi, jafnvel í ógrónu fjörugrjóti við strönd. Hún getur einnig vaxið í snjódældum á Ströndum sem oft eru mjög blautar. Þar er hún þéttust. Að lokum má nefna að hún finnst einnig í mýrum. Þá oftast meðfram sytrum. Þar er svipuð vist og hófsóley velur sér víða um land (Jón Kr. 2024).
Tvær myndir af burnirót í grjóti. Á fyrri myndinni er hún í vegghleðslu. Þótt það kunni að verða nokkuð þurrt í veggnum mun hún lifa þarna ef sauðfé kemst ekki að henni. Mynd: Sig.A. Seinni myndin er tekin af burnirót í grjóthrúgu í efstu fjörumörkum norður á Hornströndum. Mynd: Jón Kr. Arnarson. Tegundin er sérbýlisplanta og ber annað hvort karlkyns eða kvenkyns blóm. Báðar eru þessar plöntur karlkyns.

Gróður í rakri snjódæld á Hornströndum nærri Hælavíkurbjargi. Burkninn þúsundblaðarós er mest áberandi þar sem snjórinn liggur lengst. Hann virðist ekki þurfa nema örfáar vikur í vöxt á hverju ári. Svo er burnirótin mjög áberandi þótt hún hopi undan þúsundblaðarósinni. Ofar, þar sem snjó tekur fyrr upp, eru aðrar plöntur. Trúlega gætir þarna áburðaráhrifa frá fuglabjarginu. Mynd: Jón Kr. Arnarson.
Þanþol eða seigla

Hugtakið „þanþol“ lýsir því hvernig síkvik vistkerfi takast á við hverskyns rask. Sumir hafa nefnt þetta seiglu. Bæði orðin eru ágæt en í þessum pistli notum við fyrra orðið. Í þessum litla pistli höfum við fyrst og fremst skoðað nokkur hugtök sem tengjast vatninu í vistkerfunum. Segja má að meginhringrásir hvers vistkerfis séu þrjár; orka, næring og að sjálfsögðu vatn. Þessar hringrásir eru nátengdar og háðar hver annarri. Ýmislegt getur raskað þeim öllum. Má nefna ofnýtingu vistkerfa og jarðvegsrof sem dæmi. Við suma þessara þátta ráðum við ekki, svo sem öfgaveður (þó þau geti tengst athöfnum manna), öskufall, hraunrennsli og jökulhlaup. Aftur á móti eru aðrir þættir, svo sem nýting vistkerfa, sem við ráðum vel við og getum stjórnað. Því miður er það svo að ef þættirnir fara úr böndunum minnkar þanþol (eða seigla) vistkerfanna og það auðveldar öðrum ferlum að herja á vistkerfin. Þá hættir okkur mörgum til að loka augunum fyrir þeim atburðum sem við getum haft áhrif á en einblínum þess í stað á ytri atburði. Ástæða uppblásturs á Íslandi er fyrst og fremst röskun þanþols vegna ofnýtingar. Aðrir þættir geta svo lagst á sömu sveif.


Geta vistkerfa til að standast hverskyns áföll ræðst af ýmsum þáttum. Það er það sem við köllum þanþol vistkerfa. Eftir því sem við göngum nær vistkerfunum, þeim mun verr þola þau annað rask. Með öðrum orðum: Það dregur úr þanþoli þeirra. Ferlarnir sem móta umhverfisþættina hafa bein áhrif á þanþolið. Má nefna vind, snjósöfnun, traðk ferðamanna, beit og jarðvegsrof sem dæmi.
Hnignun lands felur í sér skerðingu á þessum hringrásum sem jafnframt dregur úr þanþoli eða seiglu vistkerfa sem getur leitt til landhnignunar og jafnvel hruns vistkerfa eins og dæmin sanna.

Ástand lands
Segja má að vatnið sé ekkert eyland í umræðunni um vistkerfi. Til að meta ástand lands skiptir hringrás vatns miklu máli en það er eðlilegt að taka einnig tillit til hringrása næringar og orku eins og að framan greinir. Hugtakið orka þarf að taka tillit til framleiðni og grósku gróðursins á hverjum stað. Þá skipta ýmsir eðlisþættir einnig miklu máli. Má nefna rof, uppgufun, skjól við yfirborð og fleiri þætti.

Algengt er að skipta landinu í nokkur stig þar sem fyrsta og besta stigið er heilt gróðurlendi. Síðan eru mismunandi hnignunarstig metin allt þar til komið er að auðnarstiginu. Á meðfylgjandi mynd er ástandinu skipt í sex stig. Eftir því sem ástandið versnar þeim mun minni hlutdeild gróðurs er að finna en hlutfall ógróins lands eykst. Eftir því sem ástandið er verra, þeim mun verra og kostnaðarsamara er að bæta og laga ástandið. Þetta er reynt að sýna með meðfylgjandi mynd (Ólafur og Ása 2015).

Rask og þanþol
Ýmsir, afmarkaðir atburðir geta leitt til breytinga á vistkerfum. Kallast þeir einu nafni rask. Sumt af þessu raski er náttúrulegt eins og áður greinir.
Margs konar landnýting getur einnig leitt til rasks á vistkerfum. Ólafur Arnalds og Ása L. Aradóttir (2015) nefna hluti eins og traðk og utanvegaakstur sem tengjast ferðamennsku, vegaframkvæmdir, gerð uppistöðulóna og breytingar á vatnafari í tengslum við virkjanir, ræktun lands og síðast en ekki síst beit búfjár.

Áhrif alls þessa eru miklum breytingum háðar. Minniháttar rask hefur að sjálfsögðu minni áhrif en meiriháttar rask. Margskonar rask getur lagst á sömu sveifina og saman geta margir, litlir þættir valdið miklu tjóni. Einnig skiptir máli hversu lengi raskið varir. Um þetta má meðal annars lesa í þessu riti. Hversu vel vistkerfin eru búin til að takast á við hverskonar rask ræðst af gerð og ástandi kerfanna. Eftir því sem ástand þeirra er betra, þeim mun meira er þanþolið gegn hverskyns raski. Illa farin vistkerfi eru viðkvæmari eins og gefur að skilja. Hér að ofan er myndrit sem sýnir sex ástandsstig lands. Bati eftir rask ræðst auðvitað af þanþolinu en það tekur tiltölulega stuttan tíma fyrir vistkerfið að jafna sig ef þanþol hvers stigs er teygt. Ef raskið er mikið getur landið færst á milli ástandsstiga og þá tekur mun lengri tíma að laga ástandið (Ólafur og Ása 2015).

Við vonum að þessi pistill hafi varpað einhverju ljósi á hvernig vatn hagar sér í vistkerfum. Að þekkja það getur hjálpað öllum þeim sem rækta land eða nýta gróður þess á einn eða annan hátt til að nýta landið á sjálfbæran hátt.
Að lokum viljum við þakka Ólafi Arnalds fyrir að lesa yfir handritið og Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur fyrir yfirlestur prófarkar. Þakkir fá einnig þeir sem lánuðu okkur myndir og veittu okkur upplýsingar sem við nýttum við þessi skrif.
Heimildir og frekari lestur
Jóhannes Jóhansen (2000): Føroysk Flora. Føroya Skúlabókagrunnur. Tórshavn.
Jón Kristófer Arnarson (2024): Munnlegar upplýsingar.
Ólafur Arnalds (2020): Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa. Rit LbhÍ nr. 130. Landbúnaðarháskóli Íslands. Sjá: rit_lbhÍ_nr_130_Ástandsrit.pdf (moldin.net)
Ólafur Gestur Arnalds (2023): Mold ert þú. Jarðvegur og íslensk náttúra. Iðnú útgáfa, Reykjavík.
Ólafur Arnalds og Ása L. Aradóttir (2015): Að lesa og lækna landið. Bók um ástand lands og vistheimt. Útgefendur: Landvernd, Landgræðsla ríkisins og Landbúnaðarháskóli Íslands. Sjá: https://www.moldin.net/uploads/3/9/3/3/39332633/ad_lesa_og_l%C3%A6kna_landi.pdf
Thomas M. Smith & Robert Leo Smith (2015): Elements of Ecology. Person Education Limited. Edinburgh Gate, Exis, England.
Þorsteinn Guðmundsson (2018): Jarðvegur - Myndun, vist og nýting. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
Þórunn Wolfram Pétursdóttir (2022): Í grunninn er þetta ekki flókið heldur fáránlega einfalt. Grein í Kjarnanum þann 14. mars 2022. Sjá: Í grunninn er þetta ekki flókið heldur fáránlega einfalt.
Comments