Víðir skipar stóran sess í vistkerfum Íslands. Vart er til sú vistgerð með háplöntum á Íslandi þar sem ekki má finna einhvern víði. Að auki er óvíst að í nokkru öðru landi sé hlutfallslega jafn mikið ræktað af víði eins og einmitt á Íslandi. Þó hefur mikið dregið úr ræktun hans hin síðari ár.
Víðir skipar áberandi sess í íslenskri vist. Mynd: Sig.A.
Þessi pistill er almennt um ættkvíslina. Við höfum áður skrifað pistla um fáeinar tegundir og munum sjálfsagt halda því áfram. Einnig kemur vel til greina að skrifa pistla um notkun víðis eða tiltekna hópa víðitegunda. Verður það eflaust gert þótt síðar verði.
Gulvíðir. Þessi ber nafn með rentu! Mynd: Sig.A.
Fræðiheitið
Á latínu heitir víðiættkvíslin Salix. Allar víðitegundir heita því Salix eitthvað. Sem dæmi má nefna gulvíði sem heitir Salix phylicifolia og alaskavíði sem heitir Salix alaxensis. Þegar taldar eru upp margar tegundir af víði í röð er venjan sú að sleppa Salix heitinu nema fyrst og láta duga að skrifa bara S. í staðinn. Þetta er gert þegar ljóst er hvaða ættkvísl er verið að tala um og lítil hætta á ruglingi. Á þetta jafnt við um aðrar ættkvíslir. Ef við notum þessa reglu þá væri alaskavíðirinn nefndur S. alaxensis í dæminu hér að ofan því búið var að kynna ættkvíslarheitið.
Venjan er sú að skrifa latnesk heiti tegunda og ættkvísla með skáletri en nöfn ætta eins og víðiættarinnar, Salicaceae, er það ekki. Þannig á að vera ljóst hvort verið er að tala um ættkvíslir eða ættir. Hér má lesa meira um ættir og ættkvíslir.
Grátvíðir, Salix babylonica, í grasagarðinum í Kaupmannahöfn. Mynd: Sig.A.
Tvennum sögum fer af uppruna heitisins Salix. Önnur gerir ráð fyrir að það sé úr keltnesku og sett saman úr heitunum sal sem merkir nálægt og lis sem merkir vatn. Latínuheitið merkir því viðvatn og vísar í vaxtarstaði margra tegunda. Víðir er jú mjög algengur nálægt vatni. Hin sagan segir að nafnið merki að stökkva eða spretta (úr spori) og vísi í það hversu hratt tegundin getur vaxið. Sjálfur Carl Linnaeus gaf ættkvíslinni nafn árið 1753 og mun hafa haft seinni skýringuna í huga. Réttast er að hafa þekktar skammstafanir fyrir aftan fræðiheitin sem vísbendingu um hver gaf þeim nafn. Því er samt stundum sleppt. Ef farið er eftir því ætti að skrifa Salix L. Ættkvíslarheitið er þá skáletrað en ekki bókstafurinn L sem í þessu tilfelli táknar Linnaeus, sem fyrstur manna lýsti ættkvíslinni.
Tjarnargerði í Eyjafjarðarsveit. Ýmsar trjátegundir og í hólmanum er að sjálfsögðu víðir. Í þessu tilfelli gulvíðir. Fjær sér í Leyningshóla. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalins (1712) segir að Tjarnargerði sé „hjáleigunefna“ frá Leyningi og hafi verið í eyði í 30 ár. Svo segir: „. . . kotið er óslægt og í holt uppblásið, og má því ekki aftur byggja.“ Má með sanni segja að þarna hafi landi farið fram! Mynd: Sig.A.
Gulvíðir við vatn. Í þessu tilfelli Mývatn. Mynd: Sig.A.
Um mikilvægi víðis við votlendi má meðal annars lesa í bókinni European Russian Forests. Þar segir að í Evrópuhluta Rússlands séu um 10% lands sem telja má til votlendis. Þar eru ýmsar víðitegundir ásamt svartelri (rauðelri), Alnus glutinosa, ríkjandi tegundir. Svo vex hann einnig meðfram öllum helstu ám á þeim slóðum ef birta er næg. Víðirinn getur einnig vaxið á þurrari stöðum ef hann fær næga birtu. Í áðurnefndri bók segir að víðitegundir séu fyrstar til að nema land á þessum slóðum eftir skógarhögg, skógarelda eða annars konar röskun skóga, ásamt birkitegundum, Betula spp. og blæösp, Populus tremula. Í blæasparskógum á þeim slóðum lifir víðirinn sem undirgróður. Svipaða sögu má segja frá öðrum stöðum í heiminum. Víðirinn tengist fyrst og fremst raklendi og röskuðum svæðum. Á slíkum stöðum er sjaldnast skortur á sólarljósi og því er ekki að undra að allur víðir er ljóselskur og þolir illa að vaxa í skugga.
Silfraður víðir á Silfrastöðum. Mynd: Sig.A.
Víðir getur vel vaxið þótt rakinn sé ekki mjög mikill eða jarðvegsskilyrði góð. Hér hefur víðir, mest viðja, numið land við rafmagnskassa. Myndirnar teknar með fárra ára millibili á Egilsstöðum. Myndir: Sig.A.
Ættin
Víðir, Salix spp. er af víðiætt, Salicaceae. Venjan er að telja tvær ættkvíslir innan ættarinnar. Auk víðiættkvíslarinnar eru það aspir, Populus spp. Stundum eru fáeinar aðrar en litlar ættkvíslir klofnar frá þessum tveimur en eru þá enn innar ættarinnar. Lítil reynsla er af þeim á Íslandi en um tíma var reynt að rækta hér kesjur, Chosenia spp. en það gekk almennt fremur illa. Sjálfsagt eru þær þó til á fáeinum stöðum. Flestir telja þær núna til víðiættkvíslarinnar.
Kesja, Chosenia arbutifolia, er til meðal safnara á Íslandi. Nú eru kesjur almennt taldar til víðiættkvíslarinnar. Mynd: Sig.A.
Í bók um skógartré frá 2007 er sagt frá því að sumar ættkvíslir, sem áður tilheyrðu Flacourtiaceae ættinni ættu frekar að tilheyra víðiættinni. Innan þeirrar ættar eru um 50 ættkvíslir sem fyrst og fremst finnast í hitabeltinu (Kole 2007). Aðrir telja jafnvel að þetta heiti, Flacourtiaceae, sé samheiti fyrir víðiættina í heild sinni. Það fær þó varla staðist. Þetta klagar ekki mikið upp á okkur, því þær munu aldrei vaxa í íslenskum skógum. Hér er ekki nægilega hlýtt á sumrin.
Ýmsar víðitegundir í landgræðslu á Hólasandi ásamt lerki. Ef og þegar lúpínan nemur land við víðinn nýtur hann góðs af. Mynd: Sig.A.
Víðir hefur sáð sér víða út í kjölfar friðunar. Hér má sjá víði nema land á áreyrum. Mest áberandi er gulvíður, sumt af honum komið í haustliti, annað ekki. Einnig má sjá loðvíði, viðju og ef til vill fleiri tegundir. Mynd: Sig.A.
Horft inn í Eyjafjörð yfir Moldhaugnaháls. Víðir og birki nemur land innan veggirðingar. Sama beygja á báðum myndum. Myndir: Sig.A.
Uppruni
Víðitegundir hafa verið lengur í heiminum en maðurinn og náð að mynda tegundir fyrir nánast allar vistgerðir sem í boði eru. Samkvæmt Newsholme (1992) er talið að rekja megi uppruna víðiættarinnar til svæðis sem nú er fjalllendi í Austur-Asíu. Á þeim tíma er talið að þar hafi verið einhvers konar hitabeltisloftslag eða heittemprað loftslag. Síðan hafa víðitegundir breytt úr sér yfir tempraða beltið og loks yfir í köld svæði hátt til fjalla og á heimskautasvæðum. Skyldar ættkvíslir eru svo í hitabeltinu og reyndar einnig fáeinar tegundir af víðiættkvíslinni. Á ísöld, þegar hlýskeið og kuldaskeið skiptust á, er að sjá sem tegundir á heimskautasvæðum hafi þróast mikið. Enn í dag er það svo að víðir er gjarnan með fyrstu tegundum til að nema landa þar sem jöklar hörfa. Samkvæmt hinu stóra riti Arctic Biodiversity Assessment myndar víðiættkvíslin nærst stærstu ættkvísl norður-heimskautanna með 72 tegundir. Aðeins starir, Carex, inniheldur fleiri tegundir eða 152 af þeim 2.130 blómplöntum sem finnast á þeim slóðum (Meltofte (ritst.), bls. 317-318). Af tegundum blómplantna á heimskautum myndar víðir því tæplega 3,5% tegundanna.
Þessi fjallavíðir á hálendi Íslands hefur mátt þola töluvert. Töluverður jarðvegur hefur fokið frá rótum hans eins og sjá má en hann heldur áfram að vaxa. Mynd: Sig.A.
Á ísöld var sjávarstaðan allt að 150 metrum lægri en nú er, enda mikið vatn bundið í ísnum. Í lok kuldaskeiða ísaldar gerðist það oftar en einu sinni að sjávarstaðan var hærri en síðar varð. Ástæða þess er ekki bara sú að allt þetta vatn losnaði úr jöklunum heldur líka það að land pressast niður undan ísnum og var lengur að rísa aftur þegar ísa leysti. Það gerist á sama tíma og jöklarnir bráðna. Þá er í boði aukið vatn á landi. Við þessar aðstæður myndast gjarnan töluverðar mýrar og annað votlendi. Þar skapast víða vist sem víðir gat nýtt sér.
Víðir á hálendi Íslands getur þurft að fara í kaf í vatn í miklum rigningum án þess að það trufli hann að ráði. Mynd: Sig.A.
Ýmsar víðitegundir nema land við Glerá á Akureyri. Alaskavíðir og viðja eru mest áberandi. Þarna má einnig sjá ösp. Mynd: Sig.A.
Tegundir
Talið er að um fjögur hundruð tegundir séu til í heiminum af víði auk blendinga og undirtegunda. Erfitt getur verið að ákvarða mörk tegunda og sennilega verða menn (í víðustu merkingu þess orðs) aldrei að fullu á eitt sáttir um tegundir og mörk þeirra innan ættkvíslarinnar. Sem dæmi má nefna ýmsar víðitegundir sem vaxa á stórum svæðum, jafnvel þvert yfir heilar heimsálfur. Fagurvíðir, Salix daphnoides, vex í norðurhluta Evrópu og austur til Rússlands. Mjög lík tegund, döggvíðir eða daggarvíðir, S. rorida, vex austast í norðanverðri Asíu. Saman spanna þessar tvær tegundir gríðar stórt svæði og vonlaust er að segja til um hvar önnur tegundin tekur við af hinni. Þó er það svo að plöntur frá vestustu hlutum útbreiðslusvæðisins eru auðþekktar frá þeim sem vaxa austast. Því er ekkert undarlegt að menn velti fyrir sér hvort þetta séu ein eða tvær tegundir.
Fagurvíðir í garðinum við Kristnes í Eyjafirði. Mynd: Sig.A.
Annað einkenni ættkvíslarinnar gerir það að verkum að erfitt getur verið að greina í sundur tegundir. Það er sú staðreynd að plöntur af sömu tegund geta verið mjög ólíkar. Þetta þekkjum við til dæmis hjá íslenskum víðitegundum. Það er meira að segja þannig að greinar og lauf á sama trénu geta verið ólíkar eftir því hvar á trénu þau vaxa og hvenær sumarsins.
Tvær gulvíðiplöntur sem ekki fara á sama tíma í haustliti. Myndin tekin 2. september 2019 í Lækjarbotnum ofan Reykjavíkur. Mynd: Sig.A.
Jarðlægur gulvíðir á Hólasandi. Mynd: Sig.A.
Víxlfrjóvgun milli tegunda getur vel átt sér stað og torveldar það enn greininguna. Margir líta svo á að ef einhver einstaklingur af víði er ekki alveg dæmigerður fyrir tegundina hljóti hann að vera blendingur. Það þarf ekkert endilega að vera þannig, því einstaklingar innan sömu tegundar geta verið býsna ólíkir.
Seljur eiga það til að blómstra dálítið snemma á vorin. Hér eru það kvenblóm. Mynd: Sig.A.
Íslenskar tegundir
Fjölmargar víðitegundir hafa verið fluttar inn og ræktaðar á Íslandi. Að auki eru hér fjórar tegundir sem kalla má innlendar af þeim 72 sem vaxa á heimskautasvæðum eins og áður var nefnt. Að líkindum hafa þær allar fjórar verið hér frá því fyrir ísöld ef einhverjar tegundir hafa lifað þær hremmingar af. Þetta eru grasvíðir, Salix herbacea, gulvíðir, S. phylicifolia, loðvíðir, S. lanata og fjallavíðir, S arctica sem áður var nefndur grávíðir, S. glauca eða S. callicarpaea.
Gulvíðir að vori, þakinn blómum. Mynd: Sig.A.
Víðifræ eru mjög létt og geta borist langar leiðir með vindi. Því má alveg gera ráð fyrir því að á þeim tíma, sem liðinn er frá því ísöld lauk, hafi víðifræ borist hingað frá öðrum löndum. Það landnám hefur samt ekki dugað til að fjölga íslenskum víðitegundum. Verður nánar um það fjallað síðar í pistli um íslenskan víði og í öðrum pistli um gljávíði, S. pentandra.
Rjúpuvíðir, Salix glauca, er töluvert frábrugðin fjallavíði sem eitt sinn var talinn til þessarar tegundar. Rjúpuvíðirinn vex ekki villtur á Íslandi en er hér í garði í Síðuhverfi. Mynd: Sig.A.
Vaxtarform
Víðir getur haft margs konar vaxtarform. Fer það bæði eftir aðstæðum hverju sinni og svo hvað hver tegund getur. Víðir getur verið allt frá jarðlægum smárunnum upp í stæðileg tré og mismunandi tegundir finnast allt frá hitabeltinu og inn á heimskautasvæðin. Víðast hvar gegnir víðir mjög mikilvægu hlutverki í þeirri vist sem hann finnst í. Oft og tíðum er víðir með alfyrstu, trjákenndum gróðri til að nema land þar sem jöklar hopa eða vatnsrof eða annað rof hefur orðið. Sumir þessara frumbýlinga eru alltaf lágvaxnir runnar á meðan aðrir vaxa mjög hratt og verða stórir og stæðilegir runnar eða jafnvel tré.
Alaskavíðir nemur land eftir rask í tengslum við vegagerð í Eyjafirði.
Mynd: Sig.A.
Margar víðitegundir geta að auki haft mismunandi vaxtarlag, allt eftir erfðum og umhverfi. Þannig eru í ræktun bæði nokkuð uppréttir og skriðulir klónar af loðvíði á Íslandi. Enn merkilegra má þó telja að sá klónn af demantsvíði, S. pulchra, sem ræktaður er á Íslandi heitir ´Flesja´ og er alveg jarðlægur og skriðul þekjuplanta. Hinn dæmigerði demantsvíðir (sem heitir svo vegna þess að laufin eru tígullaga) er uppréttur runni sem verður um 4,5 metrar á hæð. ´Flesja´ er gjörólík megintegundinni. Hún barst hingað með safni víðigræðlinga sem Óli Valur Hansson og félagar komu með frá Alaska árið 1985 og var einmitt valinn úr vegna þessa vaxtarlags.
Demantsvíðirinn ´Flesja´ er með láréttar greinar en ekki uppréttar eins og algengast er hjá tegundinni. Mynd: Sig.A.
Laufblöð
Víðilauf eru afar fjölbreytt í lit, lögun og áferð. Hin dæmigerðu víðilaufblöð í hugum flestra Evrópubúa eru bæði löng og mjó. Það sést t.d. í því að ein tegund af kvisti, Spiraea, er kennd við víði því laufin eiga að líkjast víði. Kallast hann víðikvistur eða Spiraea salicifolia. Orðið folia merkir lauf, þannig að viðurnefnið merkir með-lauf-eins-og-víðir. Hvaða víðitegundir þarna eru hafðar til viðmiðunar má sjá í kaflanum um mismunandi víðideildir. Í huga margra Íslendinga eru þetta hreint ekki hin dæmigerðu víðiblöð enda víðir úr annarri deild meira ræktaðir hér á landi.
Víðikvistur, Spiraea salicifolia. Latínuheitið merkir kvistur með blöð eins og víðir. Mynd: Sig.A.
Stærstu lauf ættkvíslarinnar er að finna á tegund sem nefnist Salix magnifica. Þau geta orðið allt að 25 cm á lengd og 12 cm breið. Minnstu laufin er að finna á nokkrum fjalla og heimskautavíðiplöntum. Sum verða aðeins um 10 mm á lengd eins og á S. serpyllifolia og S. polaris. Allar víðiplöntur fella laufin árvisst. Myrtuvíðir er samt þeirrar náttúru að laufin hanga á runnanum allan veturinn og skýla brumunum uns ný lauf vaxa. Stöku sinnum sést þetta einnig á gulvíði en það einkennir ekki tegundina. Til eru fleiri tegundir sem halda visnum laufum eitthvað fram eftir vetri.
Myrtuvíðir að vetri til. Mynd: Sig.A.
Mjög algengt er að lauf víðiplantna séu hærð. Einkum á neðra borði. Á efra borði er hæringin ekki alltaf eins áberandi og hjá sumum tegundum er efra borðið glansandi og hárlaust með öllu. Þessi hæring er oft notuð til að greina í sundur líkar tegundir. Sem dæmi má nefna að alaskavíðir, S. alaxensis og jörfavíðir, S. hookeriana, eru líkar tegundir. Auðvelt er samt að þekkja þær í sundur ef neðra borð laufanna er skoðað. Það er miklu loðnara og hvítara hjá alaskavíði en jörfavíði. Báðar tegundirnar eru samt hærðar.
Þrjár myndir sem sýna saman alaskavíði og jörfavíði. Fyrstu myndina tók Kjartan Benediktsson þegar vindurinn lék um tegundirnar. Þá er lítið mál að þekkja þær í sundur. Laufmyndirnar tvær tók Sig.A. Þær sýna neðra og efra borð laufanna. Ekki er auðvelt að greina tegundirnar í sundur á efra borðinu en lítið mál þegar blöðunum er snúið.
Fjölgun
Víðir er sérbýlisplanta. Það merkir að plönturnar eru annaðhvort karlkyns eða kvenkyns. Aðeins örfáar undantekningar eru frá því. Um blómgun víðis hefur áður verið fjallað í þessum þáttum. Víðirinn treystir fyrst og fremst á skordýr til frævunar en nýlegar rannsóknir benda til að vindur spili þar stundum stærra hlutverk en áður var talið. Er það þó talið misjafnt milli tegunda og aðstæðna. Þar sem mikil víðistóð sömu tegunda er að finna getur vindfrævun verið heppileg. Ef plöntur vaxa dreift er skordýrafrævun almennt miklu virkari. Í hinum stóra heimi eru það fyrst og fremst býflugur, Apis mellifera, og skyldar eða líkar tegundir sem sjá um frævunina. Sumum tegundum víðis, t.d. selju, Salix caprea, er nær alltaf fjölgað með fræi. Um tíma fjölgaði gróðrarstöðin Barri á Egilsstöðum einnig loðvíði, S. lanata, með fræi. Fengust þá upp ólíkar plöntur í hverri sáningu.
Ýmsar flugur sækja í víðiblóm eftir fæðu og veita plöntunum tilætlaða þjónustu í leiðinni. Mynd: Sig.A.
Miklu algengara er þó að fjölga víði með svokölluðum græðlingum. Þá eru greinar klipptar af víðinum og þær rættar. Gengur það oftast mjög vel. Oftast eru teknir svokallaðir vetrargræðlingar. Það eru græðlingar sem teknir eru á vetrum eða snemma vors þegar tréð er enn í dvala og stungið í bakka, beð eða beint í mold um leið og fer að vora. Einnig er hægt að fjölga víði með svokölluðum sumargræðlingum. Það er sjaldgæfara vegna þess hve auðvelt er að nota vetrargræðlinga.
Reklavíðir, Salix hastata, ber nafn með rentu. Mynd: Sig.A.
Algengast er að fjölga víði með græðlingum. Hér eru nokkrar tegundir í 24 hólfa bökkum. Þekkja má gljávíði, lensuvíði, körfuvíði, loðvíði og viðju. Mynd: Sig.A.
Genafræði
Litningar (krómósóm) eru þráðlaga líffæri í frumukjarnanum. Þeir koma í ljós við frumuskiptingu og bera í sér erfðavísana eða gen. Fjöldi litninga er mismunandi eftir tegundum. Flest þekkjum við að þegar kynæxlun á sér stað koma jafn margir litningar frá föður og móður. Hjá mannfólkinu er það þannig að fjöldinn er 23 (stundum skrifað x = 23). Hver kynfruma hefur því 23 litninga. Þeir sameinast í eina okfrumu sem hefur 23 litningapör. 23 litningapör gefa okkur 46 litninga (2n = 46). Við erum því tvílitna (diploid) tegund. Eftir þetta skipta frumurnar sér og hver um sig hefur 23 litningapör eða 46 litninga ef allt er eðlilegt. Undantekningin er sú að þegar kynfrumurnar (eggfrumur og sáðfrumur) eru myndaðar hafa þær aðeins 23 litninga.
Víðiættkvíslin er þekkt meðal erfðafræðinga sem skoðað hafa gróðurríkið. Ástæða þess er tvíþætt. Annars vegar vegna þess að að grunnfjöldi innan ættkvíslarinnar er ekki alltaf sá sami. Hins vegar vegna þess hversu algengt er að tegundir myndi fjöllitna einstaklinga, sem kallað er, í stað tvílitna tegunda eins og við þekkjum best.
Salix alba, sem stundum er nefndur silkivíðir á íslensku vex í Skotlandi. Illa hefur gengið að rækta þetta tré á Íslandi. Mynd: Sig.A.
Grunnfjöldi litninga
Sumar víðitegundir hafa grunnlitningafjölda upp á 19 litninga. Það er sennilega algengast og á við um allar þær tegundir sem hafa vaxið á Íslandi frá því fyrir landnám. Tvöfaldur litningafjöldi þeirra (diploids) er 32 litningar (2x19). Annar hópur víðitrjáa hefur grunnfjöldann 11 (sem tvöfaldast þá í 22). Þriðji hópurinn hefur svo 12 litningapör (diploid 24). Margt bendir til þess að blöndun milli hópanna þriggja sé sárasjaldgæf, ef hún þekkist yfir höfuð. En innan hvers hóps fyrir sig er blöndun frekar auðveld.
Blendingurinn Salix x sepulcralis ´Chrysocoma´ í Grasagarðinum í Edinborg.
Mynd: Sig.A.
Fjöllitna tegundir
Merkilegt má telja að margar víðitegundir eru fjöllitna (polyploid), sem kallað er. Litningafjöldi þeirra er meiri en sem nemur tvöfaldri grunntölunni. Stundum hefur fjöldi litninga jafnvel margfaldast. Þekkt eru dæmi um allt að 224 litningapör (Tudge 2005). Erfitt getur verið að telja með nákvæmni fjölda litninga í fjöllitna frumum en með bættri tækni verður það alltaf aðeins auðveldara. Það sem er enn merkilegra er að þessir fjöllitningavíðitegundir eru oft frjóar en svo er ekki alltaf með fjöllitna lífverur. Colin Tudge (2005) segir í bók sinni The Tree að þekkt sé að þeir sem ræktað hafa víði hafi blandað saman allt að 14 mismunandi tegundum til að fá fram ný yrki eða nýja klóna. Oft eru slíkir fjölblendingar fjöllitna. Hver klónn er þá aðeins eitt kyn (eins og áður greinir er víðirinn sérbýlistegund) og er fjölgað kynlaust með græðlingum, ef menn eru ánægðir með útkomuna. Frægasti klónninn sem er svona til kominn í hinum stóra heimi heitir Salix x caladoendron. Þessi klónn er kvenkyns, rétt eins og brekkuvíðirinn íslenski. Hann er allur einn og sami kvenkyns klónninn.
Víðitegundir fara einstaklega vel við vatn eins og hér má sjá í Edinborg. Mynd: Sig.A.
Á Íslandi þekkjum við bæði tvílitna og fjöllitna tegundir. Grasvíðir og loðvíður eru hvorir tveggja tvílitna. Litningafjöldi þeirra beggja er tvöföld grunnlitningatalan 2n = 38. Fjallavíðir og gulvíðir eru fjöllitna. Í eldri heimildum er fjöldinn nokkuð misvísandi og verður að taka þeim með fyrirvara. Almennt er þó talið að gulvíðir sé sexlitna (2n = 114) en meiri óvissa ríkir um fjölda litninga í grasvíði. Sennilega hafa mismunandi stofnar mismunandi fjölda litninga. Hafa sést tölur frá 2n = 76 til 2n = 190. (Jóhann Pálsson 1997)
Tré í Vaðlaskógi speglast í Eyjafjarðará. Í rakanum við ána er víðirinn áberandi. Mynd: Sig.A.
Blendingar
Eins og áður segir geta víðitegundir með sama grunnlitningafjölda víxlfrjóvgast og myndað frjóa einstaklinga. Samt er það svo að í náttúrunni er fjöldi blendinga ekki eins algengur og ætla mætti. Jóhann Pálsson (1997) vísar í tvo fræðinga, annan frá Rússlandi og hinn frá Kanada, þegar hann segir að ástæðan fyrir því sé að líkindum sú að í þroskuðum vistkerfum, sem eru í sæmilegu jafnvægi, megi ætla að hver tegund sé í þeirri vist sem hentar best. Blendingarnir eru ólíklegir til að henta betur í slíkri vist. Þróunin hleypir þeim ekki að. Aftur á móti geta slíkir blendingar náð rótfestu í röskuðum vistkerfum og í vistkerfum sem ekki hafa náð að þróast það lengi að einhverskonar jafnvægi hafi náðst. Þar má oftar finna blendinga. Passar þetta alveg ljómandi vel við hin röskuðu vistkerfi Íslands, en einnig má benda á heimskautasvæðin (þar sem miklar breytingar eiga sér stað vegna hamfarahlýnunar) og ýmiss svæði þar sem skógareldar eða annað rask hafa átt sér stað.
Víðir er mikilvægur í íslenskri vist. Víðitegundir spretta upp í friðuðu landi. Minna ber á náttúrulegum víði á beittu svæðunum. Mynd til vinstri: Þorsteinn Pétursson. Mynd til hægri: Sig.A.
Við þetta má bæta að ef og þegar víðitegundir eru fluttar út fyrir útbreiðslusvæði sín geta þær stundum myndað blendinga með þeim tegundum sem fyrir eru og lagt undir sig nýja vist. Rétt er þó að árétta að blöndun tegunda er miklu sjaldgæfari en sjálfsáning hverrar tegundar fyrir sig.
Loðvíðirinn er tvílitna tegund. Hér er hann auðþekktur á sínum gráu blöðum í blönduðu beði á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Ef foreldrar blendingstegundanna eru tvílitna verða blendingarnir það líka. Þá er líklegt að afkomendurnir minni nokkurn vegin jöfnum höndum á báða foreldrana, enda helmingur erfðaefnis kominn frá hvoru foreldri um sig.
Blendingar fjöllitna tegunda geta verið miklu margbreytilegri útlits vegna þess að mögulegar uppstokkanir erfðaefnisins eru margfalt meiri. Ef tvílitna og fjöllitna tegundir æxlast saman má ætla að erfðaefnið frá fjöllitna foreldrinu verði ríkjandi í blendningum og verða því meira áberandi.
Blóm brekkuvíðis eru alltaf kvenkyns. Deilt er um hvort hann sé hreinn gulvíðir eða gulvíðir með erfðaefni frá loðvíði. Brekkuvíðir er miklu líkari gulvíði en loðvíði. Má vera að það stafi af því að ef þessar tegundir ná að víxlast er meira erfðaefni frá gulvíðinum í litningasúpunni. Talningar á litningum benda þó til að brekkuvíðir sé ekki blendingur heldur afbrigði af gulvíði. Mynd: Sig.A.
Flokkun í deildir
Þar sem víðiættkvíslin inniheldur um 400 tegundir og fjöldi litninga í hverri frumu er mismunandi hafa fræðingar reynt að flokka víðinn í undirættir eða deildir. Newshome (1992) nefnir þrjár eða fjórar deildir og skiptir svo hverri um sig í enn minni hópa. Samkvæmt Newshome eru allskonar blendingar fremur algengir innan hverrar undirættar en fátíðir á milli hópa. Þessi skipting er orðin nokkuð gömul og eflaust má laga hana eitthvað, en hún getur engu að síður verið gagnleg þegar reynt er að öðlast yfirsýn. Flokkunin byggir fyrst og fremst á gerð blóma. Fer hún oft saman við önnur einkenni sem auðveldara er að skoða, svo sem lögun blaða. Ekki er tekið tillit til genafjölda í frumum við skiptinguna og rýrir það atriði töluvert þessa flokkun. Hér á eftir eru tenglar settir á íslensk heiti ef við höfum fjallað um þær sérstaklega.
Deildirnar eru þessar:
1. Salix- deild. Hinn dæmigerði víðir í augum Mið-Evrópubúa.
Vanalega uppréttar og stundum með örlítið hangandi greinar. Stórir runnar eða lítil tré með mjó og löng laufblöð. Blómreklar birtast á árssprotum. Tveir eða fleiri hunangsbikarar eru í hverju karlblómi og einn til tveir í hverju kvenblómi. Dæmi um tegundir: Silkivíðir (mörg önnur heiti notuð) S. alba, grátvíðir S. babylonica, hrökkvíðir, S. fragilis, lensuvíðir, S. lasiandra, svartvíðir, S. nigra og gljávíðir, S. pentandra.
Lensuvíðir, með sín löngu blöð, getur myndað tré á Íslandi. Myndin er tekin í Skriðdal. Mynd: Sig.A.
2. Capprisalix - deild
Einkum runnar eða lítil tré með margskonar lögun á laufi. Blómreklar birtast á sprotum fyrra árs. Bæði kven- og karlreklar með einn hunangsbikar í hverju blómi. Þessi deild er mun meira ræktuð hér á landi en ofantalin undirætt eða deild. Dæmi: Alaskavíðir, S. alaxensis, bjartvíðir, S. candida, selja, S. caprea, fagurvíðir, S. daphnoides, gulvíðir, S. phylicifolia, og körfuvíðir, S. viminalis.
Bjartvíðir í beði. Hann er grunaður um að hafa myndað blendinga á Íslandi.
Mynd: Sig.A.
3. Chamaetia - deild
Í þessum flokki eru fyrst og fremst lágvaxnar tegundir. Flestar er þær að finna nálægt heimskautunum eða hátt til fjalla. Blöðin að jafnaði lítil og kringlótt eða því sem næst. Reklar eru jafnan nokkuð skrautlegir, oft með rauðum eða rauðleitum fræflum. Hér er þessi deild ræktuð sem skrautplöntur og þekjuplöntur í görðum. Dæmi: Fjallavíðir, S. arctica, rjúpuvíðir, S. glauca, netvíðir, S. reticulata, grasvíðir, S. herbacea, myrtuvíðir, S. myrsinites.
Fjallavíðir austur í Skriðdal. Myndir: Sig.A.
Netvíðir ber nafn sitt af netmynstrinu í blöðunum. Mynd: Sig.A.
Skrautleg blóm myrtuvíðis. Mynd: Sig.A.
4. Stundum er fjórða hópnum bætt við. Þá kallast hann Chosenia. Aðrir hafa hann sem sérstaka ættkvísl. Munurinn er einkum sá að kesjur, Chosenia spp. treysta á vindfrjóvgun eins og aspir. Annars minna þær meira á víði en ösp. Grasafræðingar Kew Gardens eru núna þeirrar skoðunar að þetta séu víðitegundir.
Eins og sjá má á þessum pistli eru víðitegundir mjög fjölbreyttar. En í bili leggjum við ekki meira á ykkur og hættum því núna að tala um það. Enn er þó einn kafli eftir.
Gljávíðilimgerði á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Víðiryð og skordýraát
Víðiryð og asparglitta (eða asparglytta) hafa gert mikinn usla í víðirækt á Íslandi undanfarin ár. Fróðlegt er að skoða ofangreinda flokka í ljósi þessa. Svo virðist sem hefðbundið víðiryð og þau skordýr sem mest sækja á víði á Íslandi, sæki mun meira á deild númer tvö en deild númer eitt. Undantekning frá því er það sérstaka víðiryð sem sækir á gljávíði. Það er ekki sama tegund af ryðsvepp og sækir á tegundirnar í deild tvö. Að auki virðist ásókn skordýra, í þær fáu tegundir úr deild eitt sem hér eru ræktaðar, vera mun minni en í deild tvö. Sem dæmi má nefna að asparglittan virðist ekki hrifin af gljávíði. Þetta kann að vera ástæða þess hversu lensuvíðir, Salix lasiandra, virðist laus við allskonar áföll af pöddum og ryði. Má vel vera að tími fyrstu deildar sé runninn upp.
Vanalega leggst víðiryð fyrst og fremst á laufblöðin. Hér eru kvenblóm víðis löðrandi í ryði. Mynd: Sig.A.
Þakkir
Grasafræðingurinn Ágúst H. Bjarnason sendi höfundi mjög gagnlegar ábendingar sem farið var eftir. Eru honum færðar hinar bestu þakkir fyrir yfirlesturinn.
Heimildaskrá
Jóhann Pálsson (1997): Víðir og víðiræktun á Íslandi. Í Skógræktarritið. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1997. Reykjavík.
Chittaranjan Kole (ritsjt. 2007): Forest Trees (Genome Mapping and Molecular Breeding in Plants. Volume 7). The Pennsylvannian State University, USA. Springer Verlag Berlin Heidelberg.
Hans Meltofte (aðalritstjóri 2013): Arctic Biodiversity Assessment. Status and trends in Arctic biodiversity. Conservation of Arctic Flora and Fauna (CAFF) & Arctic Counsil. Akureyri.
Christopher Newsholme 1992. Willows. The Genus Salix. B.T. Batsford. London.
Olga V. Smirnova, Maxim V. Bobrovsky, Larisa G. Khanina (ritsjórn 2017): European Russian Forests. Their Current State and Features of Their History. Plant and Vegetation vol. 15. Springer Dordrecht, Holland.
Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.
Comentários