top of page
Vadlareitur.jpg

Vaðlaskógur

Eyjafjarðarsveit og Svalbarðsstrandahreppur - 1936

Árið 1936 gerði Skógræktarfélag Eyfirðinga samning við eigendur jarðanna Varðgjár, Veigastaða og Halllands um að tiltekin landspilda úr landi jarðanna yrði afhent skógræktarfélaginu til skógræktar. Sá samningur er enn í fullu gildi og hófst gróðursetning sama ár. Landspilda þessi liggur í sjó fram á um tveggja kílómetra svæði. Landslag og gróðurfar er þar fjölbreytt en var algerlega skóglaust þegar félagið fékk landið til skógræktar. Hið fjölbreytta land, mýrar, móar, melar og klappir býður því heim að rækta fjölbreyttan skóg. Má með sanni segja að það hafi tekist býsna vel. Segja má að að fullu hafi verið plantað í landið árið 1970. Eftir það hefur verið plantað fágætari tegundum til skrauts í skóginn. Þriðja febrúar 1991 féll fjöldi trjáa í miklu roki í skóginum. Einkum féll þá lerki í reit sem nýlega hafði verið grisjaður. Þetta gaf félaginu upplagt tækifæri til að gróðursetja fágæt skógartré í gott skjól. Þar má meðal annars sjá glæsilegan síberíuþin, garðahlyn, álm, hvítþin, ask og fleira. 


Mest hefur verið gróðursett af birki í reitnum en því var einnig sáð í rásir. Birkið er einkum af tvennum uppruna. Annars vegar frá Vöglum en hins vegar úr Bæjarstað. Mikill munur sést á þessum kvæmum, einkum á haustin þegar norðanbirkið fer fyrr í haustliti. Næst mest var gróðursett af skógarfuru en eins og víðast hvar um landið drapst mikið af henni af völdum furulúsar. Enn má þó finna stæðilegar skógarfurur í skóginum og fyrstu sjálfsánu skógarfurur á landinu fundust þar árið 1990.


Meðal annarra tegunda sem þarna má finna eru ýmsar grenitegundir, stafafura, lindifura og bergfura, fjallaþinur, reynir, ýmsar víðitegundir og er þó ekki allt upp talið. 

Ýmsar tegundir hafa bætt við ríki sitt í Vaðlareit. Sitkagreni, stafafura og lindifura hafa sáð sér töluvert. Einnig birkið og reynirinn. Blæöspin myndar ekki fræ en skríður þeim mun meira. Íslensku víðitegundirnar loðvíðir, gulvíðir og fjallavíðir (grávíðir) eru víða áberandi og í skógarbotninum má finna blágresi, elftingu, hrútaber og fleira. Þar má einnig sjá væna breiðu af bláfíflum sem annars teljast almennt til garðjurta á Íslandi.


Einn lundur í landinu hefur valdið miklum heilabrotum. Það er lundur af blæösp neðan við þjóðveginn. Ekkert er í gerðarbókum félagsins um að henni hafi verið plantað þarna en verður það þó að teljast líklegt. Um tíma flutti félagið inn trjáplöntur frá Noregi til að planta í reitinn og má vera að blæöspin hafi komið þaðan. Annars vex blæösp villt á Íslandi á fáeinum stöðum og því er ekki hægt að útiloka að hún hafi leynst þarna frá ómunatíð en farið að vaxa þegar reiturinn var friðaður á sínum tíma.

20201226_135524.jpg

Flatarmál:

Upphaf:

Hæsta tré:

Mælt árið:

Landeigandi:

48 ha

1936

Rússalerki 14 m

2000

Eigendur jarðanna Syðri- og Ytri-Varðgjár, Veigastaða og Halllands

bottom of page